Góð viðleitni...

...fyrstu fréttir bentu til gamalla Byggðastofnunar vinnubragða. Fé sem lagt er í rannsóknir og skráningu gagna skilar sér til baka. Bendi samt á að það eru 50.000 nemar á framhalds- og háskólastigi á Íslandi. Svo má alltaf deila um verkefnavalið.


mbl.is Rúmlega 800 störf í boði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sameinum krafta og byggjum upp

-Grein birt í Sunnlenska fréttablaðinu 6. maí 2010-
 
Í aðdraganda kosninga berast inn um bréfalúgur kjósenda stefnuskrár ýmissa framboðslista sem eru afrakstur málefnastarfs þeirra. Stefnumál listana fyrir sveitarstjórnakosningar hafa sýnt sig að vera oftast keimlík. Ástæða þessa er að um er að ræða málaflokka sem varða nærþjónustu við íbúa sem í allflestum tilfellum eru lögbundin og vel skorðuð af ríkisvaldinu. Áherslur eru þó oft mismunandi og þá helst um hvernig eigi að útfæra og sinna þeim hlutverkum sveitarfélagsins. Til að geta sinnt sínum lögbundnu hlutverkum þá er grundvallar atriði að rekstur sveitarfélagsins og ákvarðanataka sé í lagi að öðrum kosti getur sveitarfélagið ekki sinnt þeim og þar með gerst lögbrjótur.

Hrunið
Því miður hefur fráfarandi bæjarstjórnarmeirihluta B, S og V lista á yfirstandandi kjörtímabili ekki auðnast að halda rekstrinum og ákvarðanatökunum í lagi. Hruni Sveitarfélagsins Árborgar á kjörtímabilinu er ekki um að kenna stærsta bankaráni íslandssögunnar, heldur miklu frekar misráðnum ákvörðunum og vitlausum fjárfestingum bæjarstjórnarmeirihlutans. Dæmi um sóun og óráðsíu eru meðal annars: kaup á Pakkhúsinu, að glata 130 milljónum af fé okkar íbúana í áhættusjóði, Miðjumálið þar sem útlagður kostnaður sveitarfélagsins er um 100 milljónir króna, óhóflega dýr skólabygging á Stokkseyri sem enn er ekki lokið, samningur um útilistaverk við Ölfusárbrú sem aldrei var klárað, niðurgreiðsla á bæjarhátíð í öðru sveitarfélagi, hæstu bæjarstjóralaun landsins og tæknilegt gjaldþrot bæjarsjóðs 2010. Hvað varðar skrítnar ákvarðanatökur og tilkynningar ýmis konar sem vekja furðu íbúana má nefna: lokun sundlauga á frídögum, lokun á tilbúnum leikskólaplássum, bygging Þekkingargarða boðuð á blaðamannafundi sem átti að útvega 200-300 störf eftir "rán", kaffi á opinberum stöðum aftekið og það nýjasta að leysa biðlista á leikskólum með því að taka fé af liðnum "óráðstafað" í fjárhagsáætlun. Um fráfarandi bæjarstjórnarmeirihluta má samt segja til hróss að hann sá villu síns vegar hvað varðar framtíðarstaðsetningu íþróttavallarsvæðisins á Selfossi.

Uppbygging
Í dag er nauðsyn að þeir sem bjóða fram krafta sína og ná kosningu í sveitarstjórn sameini krafta og vinni saman að velferð íbúana með því að snúa rekstri sveitarfélagsins við. Það er hægt að gera með skynsamlegum og réttum ákvörðunum. Ef menn vinna saman þá verður sú vinna mun auðveldari.  Það er einfaldlega lífsnauðsyn fyrir okkur íbúana að verðandi bæjarstjórnarfólk séu með uppbrettar ermar og taki á málum með hugrekki og bjartsýni að vopni, því þá eru lifandi mönnum allir vegir færir. Orð Jóns Sigurðssonar eiga nefnilega svo vel við í dag sem aldrei fyrr „sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér" eða á íþróttamáli „sundraðir gutlum við í neðstu deild, sameinaðir spilum við í úrvalsdeild".


Sögulegir tímar hjá Ungmennafélagi Selfoss

-Grein birt í Sunnlenska fréttablaðinu 15. apríl 2010-

Í fyrsta sinn í sögunni eigum við Selfyssingar á sama tíma lið í efstu deild í þeim tveimur boltaíþróttagreinum sem mestan iðkendafjölda hafa á landinu þ.e. handbolta og fótbolta. Handknattleiksmenn hafa áður spilað í deild þeirra bestu með eftirminnilegum árangri en knattspyrnumenn eru þar í fyrsta sinn. Sannarlega glæsilegur árangur hjá metnaðarfullum iðkendum og aðstandendum sem hafa unnið þrotlaust og markvisst starf undanfarin ár. Árangurinn er einnig merkilegur fyrir þær sakir hversu sveitarfélagið hefur látið hlutfallslega lítið af skattfé sínu renna til æskulýðs- og íþróttamála á undanförnum árum. Hlutfall æskulýðs- og íþróttamála af skatttekjum í Sveitarfélaginu Árborg hefur undanfarin ár verið 6-7% fór reyndar í 9% árið 2008 á meðan að þetta hlutfall er viðvarandi 11-13% hjá sveitarfélögum sem staðsett eru á vaxtarsvæðum utan höfuðborgarsvæðisins. Í þeim sveitarfélögum ásamt Reykjavík eru staðsettir okkar helstu keppinautar á sviði afreksíþróttanna.

Sjálfboðaliðastarfið dýrmætt

Í íþróttahreyfingunni á landsvísu er talið að nálægt 20.000 sjálfboðaliðar starfi í stjórnum og nefndum, fyrir utan þann fjölda sem kemur að starfinu á annan hátt. Ef vinnuframlag þessa fólks er metið á um 200.000 krónur á ári, sem er ekki fjarri lagi, þá er heildarframlag stjórnar- og nefndarmanna á landsvísu rúmir 4 milljarðar króna á ári. Því má ljóst vera að það starf sem sjálfboðaliðar í Ungmennafélagi Selfoss vinna á hverju ári megi meta á tugi milljóna og sé umfram það sem gerist á landsvísu ef miðað er við lág framlög sveitarfélagsins. Þeim sem starfa að og fylgjast með íþróttastarfi vita að þátttaka í íþróttastarfi ýtir undir vináttutengsl og traust þar sem starfið byggir á skýrum reglum í leik og starfi. Einnig er almennt viðurkennt og vitað að íþróttir eru hagkvæmar fyrir samfélagið. Því má fullyrða að Ungmennafélag Selfoss sé ein af uppeldisstofnunum sveitarfélagsins sem ber að hlúa að og styrkja. Að lokum vil ég óska ykkur til hamingju með árangurinn!.


Frábært framtak

MS er sjúkdómur í miðtaugkerfinu (heila og mænu).

Multiple Sclerosis er ráðgáta sem valdið hefur miklum heilabrotum innan læknisfræðinnar frá því sjúkdómnum var fyrst lýst af franska taugasjúkdómafræðingnum Charcot árið 1868. Sjúkdómurinn hefur áhrif á miðtaugakerfið og getur, að mismunandi miklu leyti, haft áhrif á taugaboð í heilanum, mænunni og sjóntaugum.

Nafn sjúkdómsins gefur til kynna hvað gerist þegar fólk fær MS. Sclerosis er grískt orð og þýðir ör eða „harðnandi vefur“og multiple þýðir mörg. Endurtekin MS köst geta valdið margvíslegum skemmdum í miðtaugakerfinu og er það afleiðing af niðurbroti mýelins, sem er einangrandi efni sem umlykur taugafrumur. Þetta getur dregið úr hreyfihæfni, skynjun og hugsun að meira eða minna leyti. Síðan MS var fyrst „uppgötvaður“ hefur hann verið rannsakaður ítarlega um víða veröld. Orsakir hans og lækning eru enn óljós. 

Ýmsar almennar greinar um sjúkdóminn er að finna í greinasafni á msfelag.is
mbl.is Þetta er mjög erfitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Markaðssetning og kynningarstarf sveitarfélaga

Gerði þessa léttu rannsókn mér til gamans og vonandi verður hún öðrum að gagni.

Sjá Hlekkinn


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fundir á Stokkseyri og Eyrarbakka

Mörg mál hafa verið reifuð á fundunum á þriðjudags- og miðvikudagskvöld og mjög áhugavert að hlusta á skoðanir, skýringar og ábendingar íbúa.

Hér á eftir er upptalning á hluta af því sem komið hefur fram:

Turnar við Stokkseyri, grasrótin, stúkumannvirki, rekstur sveitarfélagsins, almenn þjónusta, gjaldskrár, kostnaðarvitund, málefni fatlaðra, undarleg staða sveitarfélaga, lántökur sveitarfélaga, undanlátssemi, félagslegar íbúðir, bent á mikilvægi vel ígrundaðra og réttra ákvarðana, aðstöðusköpun, bæjarstjórar eður ei, ylströnd,  leiðarkerfi strætó og stoppistöðvar, skipulagsmál, myndastyttur, Ölfusárbrú, bílafloti sveitarfélagsins, fasteignamat, frárennslismál, torg, unglingavinnan, svæfðar hugmyndir, yfirbygging sveitarfélagsins, skóli á Stokkseyri, aukning umferðar vegna Landeyjahafnar, ferill mála í stjórnkerfinu, heimasíðan, skóli á Eyrarbakka, aðalskipulagið og stjórnskipulagið.


Samgöngur í þéttbýli

-Grein birt í Sunnlenska fréttablaðinu 4. mars 2010-

Hlutverk gatna er ekki eingöngu til þess að akandi komist um þær á eins fljótlegan og þægilegan hátt og hægt er. Hlutverk þeirra er einnig að gegna félagslegu og efnahagslegu tilliti. Þegar horft er til miðbæja víðsvegar um heim þá er lögð áhersla á að umferð sé þar hæg, göturnar séu líflegar og fallegar og fjölbreytileg þjónusta sé við þær. Mikil umræða hefur farið fram hér í sveitarfélaginu á undanförnum árum um hvernig miðbæir eiga að vera og líta út, en minna hefur verið um framkvæmdir. Þó er flestum ljóst að ástandið eins og það er nú er ekki til mikils sóma fyrir byggðarkjarnana.

Þjóðvegurinn

Á álagstímum yfir sumartímann skapast oft veruleg óþægindi af umferðinni í miðbæ Selfoss. Á meðal sumardegi er umferðin um 20.000 bílar á sólarhring um þann kafla þjóðvegarins sem liggur í gegnum bæinn. Samkvæmt könnun sem gerð var árið 2003 er gegnumumferð um 15% á þeim kafla þjóðvegarins sem liggur í gegnum Selfoss eða um 3000 bílar á meðalsumardegi. Gert er ráð fyrir að um 3-600 bílar bætist við á dag vegna Landeyjahafnar. Það er því ljóst að það stefnir í óefni þegar nýja höfnin verður vígð.

Hver er lausnin?
Það er tvennt hægt að gera í stöðunni, bæta samgöngur í þéttbýlinu eða gera hjáleið. Bæjaryfirvöld hafa á síðustu árum komið til móts við þá þörf að bæta samgöngur í þéttbýlinu með gerð göngu- og hjólreiðastíga sem léttir á akandi umferð. Vegagerðin hefur einnig lagt sitt af mörkum með gerð hringtorgs við Ölfusárbrú. Nú er vandséð hvernig bæta á samgöngur frekar nema með hjáleið og þá væntanlega með nýrri brú yfir Ölfusá. Þegar velja á staðsetningu fyrir nýju brúnna þarf að vera skýrt hvaða markmiðum henni er ætlað að ná og að sú lausn sé valin sem líklegust er til að ná þeim markmiðum.

 


Dæmi um skekkta samkeppnisstöðu sveitarfélaga

Það er vonandi að þetta ástand vari ekki lengi. Ég er einnig sannfærður um að Snorri Finnlaugsson og félagar leggi sitt á vogarskálarnar til að snúa dæminu við á næstu árum til að gera Sveitarfélagið Álftanes samkeppnishæft á ný.


mbl.is Engir íþrótta- og tómstundastyrkir í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spáir björtu......trefillinn horfinn!

Það spáir betri tíð með blóm í haga.

Lán í óláni!

Þvílík lukka að við skyldum hafa verið á staðnum.

Hefði ekki boðið í það að sjá hvernig um hefði verið að litast á mánudag ef vatnið hefði fengið að flæða óhindrað alla helgina.

Væntanlega líkt og Salvador Dalí hefði mundað pensilinn.

 


mbl.is Vatnstjón í Sunnulækjaskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband