Markaðssetning og kynningarstarf í Sveitarfélaginu Árborg

-Grein birt í Dagskránni 25. febrúar 2010-

Vegna umræðu í sveitarfélaginu um markaðs- og kynningarstarf ákvað undirritaður að gera rannsókn á því hvernig umfjöllun um hina ýmsa byggðarkjarna landsins hefur þróast frá árinu 1950 og hvort hún sé í takti við íbúaþróun á hverjum stað fyrir sig. Þessi rannsókn var gerð með hjálp upplýsinga frá Hagstofunni og vefsíðunnar timarit.is en hún veitir aðgang að prentuðum blöðum og tímaritum frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi á stafrænu formi, þar sem notendur geta leitað að efni á ýmsan hátt, svo sem eftir titlum, löndum eða völdum orðum í öllum texta ritanna. Hér verður gerð grein fyrir helstu niðurstöðum um byggðarkjarnana í Sveitarfélaginu Árborg.

Morgunblaðið góð heimild

Ef sett eru inn nöfn byggðarkjarnanna í leitarslóð og fallbeygingar þeirra orða sést hve oft þau koma fyrir í hinum ýmsu blöðum og tímaritum. Fjöldi leitarniðurstaðna er mestur í Morgunblaðinu. Sá prentmiðill hefur komið út samfleytt frá árinu 1913 og er því nokkuð góð heimild um umfjöllunarefni líðandi stundar á hverjum tíma.

Fjöldi leitarniðurstaðna

Fjöldi leitarniðurstaðna á árabilinu 1950 til 2009 sést á súluritinu fyrir hvern byggðarkjarna í Sveitarfélaginu Árborg ásamt Árborgar heitinu sjálfu. Það sem er athyglisvert að sjá er að það er stöðug aukning á umfjöllun um byggðarkjarnana í Árborg. Það kemur að einhverju leyti til af því að Morgunblaðið stækkar að umfangi og efnistökum og einnig af því að umfjöllun almennt hefur aukist um byggðarkjarnana í áranna rás.

Aukning umfjöllunar milli áratuga

Á línuritinu sést aukning umfjöllunar á hverju tíu ára tímabili í byggðarkjörnum Árborgar. Eins og sést á línuritinu þá er um 100% aukning á umfjöllun um Selfoss frá áttunda til níunda áratugar síðustu aldar og um 90% aukning á milli níunda og tíunda áratugar fyrir Eyrarbakka. Á þessum árum var Selfoss nýbúið að öðlast kaupstaðarréttindi og ungi kaupstaðurinn auglýsti staðinn grimmt sem miðstöð samgangna og ferðaþjónustu tengdri höfuðborginni með hraðbraut, þar var allt Suðurland lagt undir. Þá eru ótaldar þær sýningar sem voru hér þ.e. landbúnaðarsýningin, iðnsýningar o.s.frv. og því var slegið upp í prentmiðlum að það þætti einstakt að hér þrifust 65 iðnfyrirtæki í 3000 manna bæ. Íbúafjölgun varð hér mikil og þótti mikið fagnaðarefni að hún væri stöðugt yfir landsmeðaltali.

Hvað gerist svo?

Meðalaukning umfjöllunar á milli áratuga í Morgunblaðinu hjá þessum 3 byggðarkjörnum yfir 60 ára tímabil er 44%. Ef litið er til síðustu tveggja áratuga sést að hlutfallsleg aukning umfjöllunar á milli áratuga hefur lækkað umtalsvert um Selfoss og Eyrarbakka en hækkað fyrir Stokkseyri. Væntanlega hefur umfjöllunin aukist um Stokkseyri vegna kraftmikils starfs einkaaðila þar, sem hafa verið duglegir við að auglýsa staðinn. Þessar leitarniðurstöður gefa ákveðnar vísbendingar um að þeir sem annast markaðs- og kynningarstarf sveitarfélagsins fyrir hönd byggðarkjarna sinna þurfa að girða sig í brók. Markaðssetning og kynningarstarf á byggðarkjörnum sveitarfélagins má nefnilega ekki mæta afgangi. Það er því nauðsyn að sýna kjark og þor og snúa þessari þróun við í samstarfi við fyrirtæki, verslunareigendur og þjónustuaðila í sveitarfélaginu til heilla fyrir okkur íbúana.

 

       
Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér efni skýrslunnar frekar og gera samanburð við aðra byggðarkjarna landsins geta haft samband við undirritaðan í síma 866 3684 eða með því að senda tölvupóst á netfangið ellert@verkarborg.is frá og með mánudeginum 1 mars.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tólf frambjóðendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Sveitarfélaginu Árborg!

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í þriðja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Sveitarfélaginu Árborg fyrir komandi sveitarstjórnakosningar.

Á þessari bloggsíðu verður hægt að nálgast greinar eftir mig sem birtar hafa verið í blöðum og tímaritum, sem og efni sem mér er hugleikið.

Prófkjörið fer fram laugardaginn 13. mars nk. frá kl. 10.00 til 18.00. Utankjörstaðakosning hefst laugardaginn 27. febrúar, hægt verður að kjósa  í Sjálfstæðishúsinu Selfossi að Austurvegi 38 frá kl. 18.00 til 19.00 alla virka daga og frá 13.00-15.00 um helgar. Í Valhöll verður hægt að kjósa virka daga frá 9.00 til 17.00.


Sundlaugar með lífræna hreinsun

-Grein birt í Tæknivísi 2008, blaði byggingartæknifræðinema við HR-

Í janúar 2007 fórum við starfsmenn á Verkfræðistofu Árborgar á ráðstefnu í Hannover ásamt Önnu Elínu byggingartæknifræðinema við Háskólann í Reykjavík, til að fræðast um sundlaugar með lífræna hreinsun. Við vorum einu fulltrúar Íslands og vöktum töluverða athygli fyrir. Þarna viðuðum við að okkur gögnum og fræddumst mikið um þessar gerðir lauga. Úr varð að Anna sem við buðum með gerði lokaverkefni um laugarnar, sem að ég svo leiðbeindi við. Þessi grein er úrdráttur úr því verkefni (ýta á tengilinn).

Í sömu ferð sáum við Íslendinga vinna Slóvena á Heimsmeistaramótinu í Þýskalandi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Skuldir Árborgar

-Grein birt í Dagskránni 27. nóvember 2009-

Skuldastaða Sveitarfélagsins Árborgar er mikið áhyggjuefni fyrir okkur íbúana. Skuldasöfnun sveitarfélagsins hefur stóraukist á síðastliðnum árum á hvern íbúa eins og sjá má af súluriti. Samkvæmt súluritinu sem unnið er upp úr ársreikningum sveitarfélagsins og endurskoðaðri fjárhagsáætlun fyrir árið 2009 sem samþykkt var á bæjarstjórnarfundi þann 11 nóvember síðastliðinn, sést að skuldir bæjarsjóðs utan lífeyrisskuldbindinga per íbúa hafa nærri tvöfaldast, úr 402 þúsundum í árslok 2006 í 793 þúsund í árslok 2009. Ef lífeyrisskuldbindingar og skuldir fyrirtækja í eigu sveitarfélagsins eru teknar með þá skuldar hver íbúi ríflega 1100 þúsund krónur, samkvæmt sömu gögnum. Lítt er hægt að kenna gengisfalli íslensku krónunnar um þar sem staða lána sveitarfélagsins í erlendri mynt eru aðeins um 16% af heildarskuldum. Til að setja þessa grafalvarlegu skuldastöðu í eitthvað samhengi þá eru skuldbindingar íslenska ríkisins vegna Icesave reikningana margumtöluðu, 1115 þúsund krónur per íbúa ef endurheimt eigna Landsbankans verður 75%.

Eiga lánastofnanir skráðar eignir sveitarfélagsins?
Samkvæmt endurskoðaðri fjárhagsáætlun fyrir árið 2009, kemur í ljós að bæjarsjóður á einungis 4.7% í skráðum eignum sínum. Þetta þýðir að bankar, lífeyrissjóðir og aðrar lánastofnanir eiga 95.3% af eignum Sveitarfélagsins Árborgar, því væntanlega hafa þær tekið veð fyrir lánunum. Því má segja að lánastofnanirnar leigi sveitarfélaginu fasteignirnar í raun í formi vaxta og annars bankakostnaðar s.s. lántökugjalda, tilkynningar- og greiðslugjalda, afgreiðslugjalda, umsjónargjalda, reikningsyfirlita, veðbókavottorða, umsýslugjalda og þinglýsingar- og stimpilgjalda sem rennur síðan til sýslumanns. Þar sem þessar eignir eru skráðar á sveitarfélagið þá borgar bæjarsjóður af þeim öll gjöld og rekstrarkostnað s.s. hita, fasteignagjöld sem að vísu renna aftur í bæjarsjóð og rafmagn sem rennur ekki til bæjarsjóðs þar sem sveitarfélagið hefur selt frá sér rafveituna. Í ljósi þessa þá má spyrja sig þeirrar spurningar hver er munurinn á að leigja fasteignir af bönkum og lánastofnunum eða fasteignafélögum sem eru í eigu sjálfra sveitarfélaganna?

Óheppnin eltir bæjaryfirvöld

Óheppnin eltir bæjaryfirvöld á röndum. Á meðan sveitarfélög á vaxtarsvæðum utan höfuðborgarsvæðisins komast þokkalega frá rekstri og eiga handbært fé til að greiða niður skuldir, þá tapar Sveitarfélagið Árborg rúmlega 1800 milljónum. Því miður fyrir okkur íbúana þá lentu bæjaryfirvöld í fleiru. Bæjaryfirvöld lentu í að ráða pólitískan bæjarstjóra, þau lentu í því að íbúum fjölgaði, þau lentu undir þrýstingi sem leiddi af sér arðlausar fjárfestingar, þau lentu í að glata 130 milljónum af fé okkar íbúana í áhættusjóði, þau lentu í því að eigið fé sveitarfélagsins er að hverfa og þau lentu í því að skuldirnar eru að vaxa þeim yfir höfuð. Það er ekki nema von að við íbúarnir spyrjum okkur, í hverju lenda bæjaryfirvöld næst?

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fjör í Árborg

-Grein birt í Dagskránni 28. janúar 2010-

Sérstaða sveitarfélagsins Árborgar er meðal annars fólgin í því að vera staðsett við eina helstu matarkistu landsins, með ægifagurt útsýni til allra átta. Við ströndina höfum við sjávarfangið og upp í landi höfum við landbúnaðarafurðirnar. Á þessum auðlindum byggðist lífið hérna í upphafi og gerir enn í dag, ásamt öflugum iðn- og þjónustufyrirtækjum. Bæjarhátíðir með áherslu á sérstöðu sveitarfélagsins og öflugri markaðssetningu okkar afurða myndu vekja mikla eftirtekt. Þrátt fyrir erfiða tíð, þá er það nú svo að táp og fjör og frískir menn finnast hér í Árborg enn. Matarhátíðir þar sem blásið er kröftuglega í lúðra í stórum tjöldum og sungið hástöfum íslensk þjóðlög með tilheyrandi dönsum er eitthvað sem dregur að forvitna ferðamenn jafnt innlenda sem erlenda.

Hlutverk sveitarfélagsins
Hlutverk sveitarfélagsins er að greiða götu einstaklingana og fyrirtækjanna á svæðinu til að skapa slíka stemningu. Nú þegar íslensk framleiðsla og heimilisiðnaður eru í hávegum höfð er tækifæri til sóknar. Landbúnaðarsýningar sem haldnar hafa verið á Selfossi eru góð dæmi um vel heppnaðar hátíðir sem vöktu þjóðarathygli. Sveitarfélagið Árborg getur vel hjálpað til við að skapa umgjörð um slíka viðburði, í stað þess að niðurgreiða bæjarhátíðir í öðrum sveitarfélögum.

 


Framtíðin er björt

-Grein birt í Sunnlenska fréttablaðinu 28. janúar 2010-

Íbúum sveitarfélagsins er kunn sú staðreynd að hér í Árborg eigum við afreksfólk í fremstu röð á allflestum sviðum íþróttanna. Árangur knattspyrnudeildar U.M.F. Selfoss á síðasta keppnistímabili í meistaraflokki, er afrakstur óeigingjarns starfs fjölmargra sjálfboðaliða og leikmanna sem unnið hafa í þágu deildarinnar. Þar sannaðist að góðir stuðningsmenn eru lykillinn að góðum árangri. Mikil eftirvænting er í sveitarfélaginu fyrir komandi tímabil að sjá Selfossliðið spreyta sig í deild þeirra bestu á Íslandi. Engin vafi er í mínum huga að vel eigi eftir að takast til. Knattspyrnudeildin rekur metnaðarfullt starf þar sem um 600 börn og unglingar iðka íþróttina undir stjórn vel menntaðra þjálfara samkvæmt fullmótaðri kennsluskrá. Framtíðin er björt, því úr þessu starfi höfum við á síðustu árum eignast  knattspyrnumenn og konur í landsliðum Íslands. Svipaða sögu má segja um aðrar deildir innan ungmennafélagsins sem reknar eru með miklum myndarbrag.

Hlutverk sveitarfélagsins
Hlutverk sveitarfélagsins er að útbúa þá aðstöðu sem þarf til að árangur náist. Krafa íbúana var sú að „þjóðarleikvangur" okkar yrði staðsettur fyrir miðju höfuðstaðs Suðurlands. Hrósa ber fráfarandi bæjarstjórnarmeirihluta fyrir að taka mark á kröfum íbúana og taka vinkilbeygju í afstöðu sinni á framtíðarstaðsetningu hans, því hjarta Selfoss er mun heppilegri staðsetning fyrir íþróttamannvirki en Eyðimörk í útjaðri bæjarins.


Rekstur Sveitarfélagsins Árborgar er áhyggjuefni fyrir okkur íbúanna

-Grein birt í Dagskránni 29. október 2009-

Með því að rýna í gögn sem gerð voru aðgengileg á heimasíðu sambands íslenskra sveitarfélaga þann 19. október síðastliðinn, sést glöggt að rekstur Sveitarfélagsins Árborgar er í dag áhyggjuefni fyrir okkur íbúanna. Ef skoðuð er rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins í samanburði við þau 15 sveitarfélög sem mynda svokallað *vaxtarsvæði utan höfuðborgarsvæðisins ásamt Árborg, þá sést að á góðærisárinu 2007 drögumst við langt aftur úr viðmiðunar sveitarfélögunum hvað varðar rekstrarniðurstöðu sem hlutfall af tekjum. Meðan hin sveitarfélögin voru að skarta jákvæðu hlutfalli upp á að **meðaltali 39,2% var Árborg með hlutfall upp á 17,3%, þ.e. hin sveitarfélögin voru með ríflega tvöfalt betri rekstrarniðurstöðu. Árið 2008 er rekstrarniðurstaðan hinsvegar neikvæð um 25,9% hjá viðmiðunarsveitarfélögunum en enn verri hjá Árborg eða -35,2%. Það sem þetta þýðir í krónum og aurum er að rekstrarafgangur upp á 570 milljónir árið 2007 snérist í rekstrartap upp á 1208 milljónir árið 2008, eða viðsnúningur upp á 1808 milljónir!.

Er eigið féð að hverfa?
Sömu gögn sýna að rekstur Árborgar hefur verið í sæmilegu jafnvægi við hin sveitarfélögin undanfarin ár hvað varðar rekstrarkostnað sem hlutfall af tekjum eða í kringum +/-5%. Sem sagt, ekkert ofurósamræmi í líkingu við árin 2007 og 2008. Ef Árborg hefði haldið í við hin sveitarfélögin þá hefði staðan verið 1290 milljónir í rekstrarhagnað á árinu 2007 en rekstrartap upp á 890 milljónir árið 2008  þ.e. Árborg hefði skilað 400 milljónum í plús yfir þessi tvö ár. Í stað þess er rekstrartapið um 640 milljónir á tímabilinu, eða mismunur uppá rúmlega 1 milljarð sem rekstur Árborgar skilar lakari útkomu á tveimur árum en viðmiðunarsveitarfélögin! Hvar er þessi milljarður?. Eigið fé Sveitarfélagsins Árborgar í árslok 2008 nam um 1008 milljónum samkvæmt ársreikningi. Með sama áframhaldi dugar eigið féð ekki til ársloka 2010, hvað gerist þá?

Skýringa er þörf
Á meðan önnur sveitarfélög söfnuðu verulega í sarpinn á góðæristíma gerði Árborg það ekki. Hvað var það sem gerði það að verkum að rekstrarniðurstaða Árborgar varð svona mikið lakari en hjá hinum sveitarfélögunum? Hvað varð til þess að bæjaryfirvöld misstu að mestu af góðærinu en tóku „vondærið" með trompi umfram önnur sveitarfélög? Hvar og hvernig fóru bæjaryfirvöld útaf sporinu?  Þessi dapra niðurstaða þarfnast skýringa við.

 *Vaxtarsvæði utan höfuðborgarsvæðisins eru Reykjanesbær, Grindavíkurbær, Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður, Sveitarfélagið Vogar, Akraneskaupstaður, Hvalfjarðarsveit, Borgarbyggð, Akureyrarkaupstaður, Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað, Sveitarfélagið Árborg, Hveragerðisbær, Sveitarfélagið Ölfus, Grímsnes- og Grafningshreppur og Bláskógabyggð.

 **Sveitarfélagið Árborg er tekið með í meðaltölin sem gerir stöðuna verri fyrir viðmiðunarsveitafélögin, þ.e. útkoman hefði verið betri en 39,2% árið 2007 og betri en -25,9% árið 2008.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband