15. Unglingalandsmót UMFÍ 2012 á Selfossi

-Grein birt í Sunnlenska Fréttablaðinu 22. des. 2011-

Unglingalandsmót UMFÍ eru á meðal stærstu íþróttaviðburða landsins ár hvert og hafa unnið sér fastan sess sem ein stærsta fjölskylduhátíðin um hverja verslunarmannahelgi. Þannig má búast við að um metfjölda verði að ræða í sumar þar sem áætlanir gera ráð fyrir að um 15-20 þúsund gestir leggi leið sína til okkar, enda mótið notið sívaxandi vinsælda. Keppt er í fjölda íþróttagreina og haldnar skemmtanir fyrir unglingana og aðstandendur þeirra. Því má ljóst vera að Sveitarfélagið er að takast á hendur við mjög stórt verkefni.

Starfshópur Sveitarfélagsins

Í því skyni að sem best takist til, þá stofnaði Sveitarfélagið Árborg starfshóp til að undirbúa það sem best fyrir mótið. Í lok sumars 2010 var hópurinn skipaður og þá einnig til að undirbúa sveitarfélagið fyrir Landsmót UMFÍ 2013. Hlutverk starfshópsins er að vinna með Framkvæmdanefnd Landsmótanna. Starfshópinn skipa pólitískt kjörnir fulltrúar, formenn nefnda sem snúa að æskulýðs-, skipulags og framkvæmdamálum auk vallarstjórnar Ungmennafélags Selfoss og framkvæmdastjóra sveitarfélagsins. Helstu verkefni sem starfshópurinn stóð frammi fyrir og þarf að leysa eru: að aðstaðan til íþróttahalds, sem nú er til staðar að mestu, verði klár; einnig að tjaldstæði með tilheyrandi aðstöðu,  almenningssamgöngum, vatnslögnum, salernum og rafmagni verði tilbúin í tæka tíð. Frá því starfshópurinn var skipaður hafa verið haldnir á annan tug funda þar sem allir hafa lagt hönd á plóg við skipulagninguna og hvernig best sé að ráðstafa fjármunum í verkefnið.

Ánægjulegt sumar 2012

Það er von okkar meðlima í starfshópnum að við Selfyssingar og sunnlendingar allir getum tekið vel  á móti þessum fjölda gesta og að við getum verið sem ánægðust með hvernig til tekst. Hér á svæðinu er hefð fyrir öflugu félags- og sjálfboðaliðastarfi og höfum við oft sýnt áður að við stöndum saman þegar mest á reynir. Því er enginn efi í mínum huga að við öll komum til með að eiga ánægjulegt sumar 2012.

Sjá einnig myndir hér að neðan...flottar myndir :)


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband