Yfirlýsing formanns bæjarráðs í Svf. Árborg vegna ummæla oddvita Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ sem hann lét falla í Dagmálum Morgunblaðsins um að „Allt væri á húrrandi hausnum í Árborg“

Ásgeir Sveinsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ lét þau ummæli falla  í Dagmálum Morgunblaðsins í gær að: „Allt væri á húrrandi hausnum í Árborg“[1] í kjölfarið tók Morgunblaðið ummælin og notaði sem fyrirsögn á frétt. Ummælin lét hann falla í eftirfarandi samhengi:

„Núna standa þeir frammi fyrir því að það er búið að fjölga gríðarlega hjá þeim en þeir hafa ekki verið að rukka nein innviðagjöld, þeir hafa ekki verið að selja þessar lóðir og núna standa þeir frammi fyrir því að allir innviðir eiga eftir að byggjast upp, skólar leikskólar og hvað annað. Og þetta er allt á húrrandi hausnum þar,“

Ekki ætla ég að fara að rita hér einhverja langloku um skuldastöðu Árborgar sem svar við þessu gaspri, en bendi hér á eina ágæta grein sem rituð er af yfirvegun um stöðu fjármála Svf. Árborgar[2]. Greinin var rituð í dag af fyrrverandi framkvæmdastjóra Sambands sunnlenskra sveitarfélaga og fyrrverandi bæjarfulltrúa á Selfossi. Ég leyfi mér að benda á hana sem langa svarið við gaspri oddvitans í Mosfellsbæ. Og einnig ætla ég að benda oddvitanum á að kynna sér samninga okkar við landeigendur og framkvæmdaaðila í Árborg sem hluta af langa svarinu. Auk þessa vil ég benda oddvitanum á að á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga má nálgast ýmislegt talnaefni tengt rekstri sveitarfélaga þar sem hægt er að gera samanburð á milli sveitarfélaga með einföldum hætti.

Stutta svarið við gasprinu er þetta. „Trúður[3]  með gyllta hálskeðju og trúður með enga hálskeðju verða alltaf trúðar í mínum augum“. Og „mind your own business!“

Ég hef aftur á móti mun meiri áhuga á því að nota tækifærið hér og lýsa „Ný“ Sjálfstæðisflokknum og vinnubrögðum hans í aðdraganda kosninga með örlítið fleiri orðum.

Þannig er nú það að ég hef tekið þátt í þeim nokkrum kosningabarráttunum í gegnum tíðina og ég verð að segja að þessi kosningabarátta hefur verið sú forvitnilegasta sem ég hef tekið þátt í. Og mjög fróðlegt fyrir mig persónulega að sjá og finna fyrir vinnubrögðum minna gömlu félaga í Sjálfstæðisflokknum. Þar sem dagskipunin er að endurtaka sömu lygina aftur og aftur í þeirri von um að einhverjir fari að trúa henni. Í stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins nefnist námsáfanginn „Let them deny it, 101“. Aðferðinni hefur ítrekað verið beitt nú í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna hér í Árborg. Og svo nú með dyggri aðstoð oddvitans í Mosfellsbæ. Þeir eru reyndar fleiri utan Árborgar þykist ég vita sem taka þátt í leiknum, ég kannast við fingraförin. Næst þegar ég hitti ykkur kæru fyrrum félagar sem eruð með fingurna á bólakafi í kosningabaráttunni í Árborg, mun ég knúsa ykkur og þakka ykkur fyrir að leyfa mér að takast á við aðferðafræðina sígildu. Og sigrast á henni!

„Ný“ Sjálfstæðisflokkurinn

Ég yfirgaf Sjálfstæðisflokkinn (eða öfugt) þann 14. október 2017. Daginn eftir gerðist ég stofnfélagi í Miðflokknum. Þar hef ég fengið að starfa í anda stefnu Sjálfstæðisflokksins, frjáls og sjálfstæður[4]. Frjáls og sjálfstæður frá hentistefnu „Ný“ Sjálfstæðisflokksins.

Gárungarnir í Árborg hafa svo sagt mér að það sé bara einn sjálfstæðismaður í bæjarstjórn Árborgar sem starfar í anda grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins. Hann hafi svo sannarlega sýnt það í verki sl. fjögur ár. Maðurinn er bara ekki í Sjálfstæðisflokknum. Hann er í Miðflokknum!

Hvernig skyldi standa á því? Jú, það er vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur breyst í hentistefnuflokk á undanförnum árum og jafnvel áratugum. Svo skaðleg hefur þessi hentistefna verið fyrir þjóðina, að hún náði að leggja hana fjárhagslega á hliðina. Sjálfstæðisflokkurinn hefur svo þróað og forherst í því að ætla bara að vera hentistefnuflokkur, sem ekkert mark er á takandi þegar að á reynir. Svo skilja flokksmenn ekkert í því af hverju fylgið hrynur af flokknum. Kæru fyrrum félagar í Sjálfstæðisflokknum, fylgið við flokkinn ykkar hrynur vegna þess að flokkurinn iðkar ekki þá trú sem hann boðar. Svo einfalt er það. Hvað ætlið þið kæru fyrrum félagar mínir, þeir sjálfstæðismenn sem enn eru eftir í flokknum, að gera í því?

 

Tómas Ellert Tómasson, byggingarverkfræðingur, oddviti M-lista Miðflokksins og Sjálfstæðra og formaður bæjarráðs í Svf. Árborg.

 

[1] https://www.mbl.is/frettir/innlent/2022/05/10/allt_a_hurrandi_hausnum_i_arborg/

[2] https://www.sunnlenska.is/adsent/skuldir-sveitarfelagsins-arborgar/

[3] https://kjarninn.is/frettir/kallar-sigurvegara-i-profkjori-sjalfstaedisflokks-i-mosfellsbae-truda-og-segir-sig-ur-flokknum/

[4] https://xd.is/sjalfstaedisstefnan-i-hnotskurn/


Sundabraut - pólitískur ómöguleiki?

Þrátt fyrir mikla efnahagslega niðursveiflu nýtur íslenska ríkið nú betri kjara en áður. Það er afleiðing þeirra róttæku efnahagsaðgerða sem ráðist var í á árunum 2013-16 undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, nú formanns Miðflokksins. Þessa stöðu á að nýta til að byggja upp innviði landsins, ekki hvað síst í samgöngum. En þá skiptir öllu máli að forgangsraða rétt og ráðast í hagkvæmar framkvæmdir þar sem þörfin er mest.

Sagan stutt, um Sundabraut

Miklar væntingar hafa verið meðal landsmanna um lagningu Sundabrautar og að framkvæmdir við hana hefjist fyrr en síðar eftir að hafa verið á hinu pólitíska teikniborði í áratugi. Því miður virðast stjórnvöld hvorki hafa sýn né stefnu um það hvernig verkinu verður hrint í framkvæmd og hún virðist vera pólitískur ómöguleiki eins og staðan er núna.

Upphafið að Sundabraut má rekja allt til endurskoðunar á aðalskipulagi borgarinnar árið 1972. Þremur árum síðar, árið 1975 kom hún fram sem hugmynd í tillögu að aðalskipulagi en var aldrei staðfest. Það var svo ekki fyrr en tæpum tíu árum seinna, eða 1984 sem Sundabrautin kemur inn á staðfest skipulag. Hinsvegar hófst ekki undirbúningur að þessu mikla verki fyrr en í ársbyrjun 1996. Vegagerðin og Reykjavíkurborg hafa allt frá þeim tíma, lagt mikla vinnu í að rannsaka mögulega kosti á legu hennar. Í aðalskipulagi borgarinnar til ársins 2016, kemur fram að Sundabrautin muni bæta samgöngur milli Borgarholts og Grafarvogar og margra borgarhluta í norðurhluta Reykjavíkur. Hagfræðingar og umferðaverkfræðingar hafa verið sammála um ágæti verksins og er skemmst að minnast þess að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á opnum fjarfundi efnahags- og viðskiptanefndar fyrir ári síðan að honum þætti „alveg stórundarlegt og ámælisvert að Sundabraut hafi ekki verið byggð miðað við þá umferð sem er í bænum.“

Fleiri eru sama sinnis. „Hvað með þjóðhagslegan sparnað af styttingu leiða og öll sóknarfærin sem skapast þegar til verður verðmætt byggingarland við brúarsporðinn, álag minnkar af Vesturlandsvegi og ný tækifæri opnast til uppbyggingar milli Reykjavíkur og Mosfellsbæjar og allt upp á Kjalarnes? Hvernig væri að taka höndum saman og horfa til framtíðar,” skrifaði Helgi Þór Ingason, prófessor og verkfræðingur fyrir nokkrum árum um tækifærin sem felast í Sundabraut.

Skortur á pólitískri forystu

En þó að Sundabraut hafi verið á áætlun svona lengi skortir augljóslega pólitíska forystu til að hrinda verkinu í framkvæmd. Árið 2000 sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi borgarstjóri, um Sundabraut á hverfafundi í Grafarvogi: „…og fljótlega í haust verður tekin ákvörðun um eina lausn og ef allt gengur að óskum ættu framkvæmdir að geta hafist á næsta ári“. Svona hafa yfirlýsingar vinstri manna verið í Reykjavík í gegnum tíðina en á sama tíma hafa sumir þeirra beinlínis unnið gegn lagningu brautarinnar. Engum dylst að meirihlutinn í Reykjavík telur sig hafa hag af því að skapa óvissu um framtíð Sundabrautar og núverandi ríkisstjórn virðist eiga í vandræðum með að fastsetja verkefnið. Það er óþolandi staða fyrir landsmenn, en fáar framkvæmdir eru mikilvægari. Fyrir því eru margar ástæður eins og við Miðflokksmenn höfum verið að reyna að vekja athygli á um langt skeið. Það er því miður ástæða til að óttast að hönnunarvinna dragist á langinn og verkefnið tefjist von úr viti.

Ráðumst strax í verkið

Ekki er langt síðan samgönguráðherra og borgarstjóri Reykjavíkur boðuðu til blaðamannafundar sem átti að ramma inn framkvæmdaáætlun Sundabrautar. Þegar grannt var skoðað reyndist þar um sýndarmennsku að ræða. Engin ákvörðun liggur fyrir um fyrirkomulag verksins eins og það lykilatriði hvort byggð verði brú eða grafin göng. Tímasetningar eru þar að auki í algeri óvissu og engin leið að sjá fyrir sér hvenær ráðist verður í verkefnið. Svo virðist sem meirihlutinn í Reykjavík hafi komið að borðinu með allskonar fyrirvara sem virðist vera ætlað að koma í veg fyrir að Sundabraut verði að veruleika. Samgönguráðherra kaus að taka þátt í leikritinu nú skömmu fyrir kosningar, væntanlega til að slá ryki í augu kjósenda. Næsta kjörtímabil virðist þannig aðeins eiga að nota í að skoða málið áfram og gera „félagshagfræðilega greiningu á þverun Kleppsvíkur“. Blekið var ekki þornað á pappírnum þegar ljóst var að undirritunin breytti engu um áform um Sundabraut, því borgarstjóri afneitaði framkvæmdinni tíu sinnum í einu og sama viðtalinu við Morgunblaðið, fáum mínútum eftir undirritunina.

Ég hyggst berjast fyrir því að ráðist verði í lagningu Sundabrautar sem fyrst og að lögð verði áhersla á að flýta undirbúningi og framkvæmdum. Erlendis hafa verkefni af þessu tagi verið hugsuð heildstætt þannig að samgöngubótin haldist í hendur við byggðauppbyggingu sem nýtist bæði atvinnulífi og einstaklingum. Hagkvæmni verkefnisins og arðsemi þess ætti að réttlæta slíka flýtingu framkvæmda. Sundabraut er ekki pólitískur ómöguleiki komist Miðflokkurinn til valda, því við gerum það sem við segjumst ætla að gera - „Sundabraut strax!“

Höfundur er byggingarverkfræðingur og skipar 2. sæti á lista Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi Norður.

Greinin birtist fyrst á Skoðun á visir.is
6. september 2021


Ó­gæfu­för Há­lendis­frum­varpsins

Er einhver búinn að gleyma furðulegu frumvarpi umhverfisráðherra um Hálendisþjóðgarð? Framlagning frumvarpsins fór ekki vel af stað en með því var kastað rýrð á friðunar og verndarstarf sveitastjórnarmanna, félagasamtaka og almennings um land allt. Um leið virtist frumvarpinu vera ætlað að uppfylla draum vinstri manna um stofnanavæðingu og miðstýringu náttúruverndar í landinu. Til þess nutu þeir stuðnings forystumanna Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Þá fannst mörgum heldur dapurlegt að sjá forseta Alþingis í ræðustól mæla með frumvarpinu með þeim orðum að einungis „grenjandi minnihluti“ væri andsnúinn frumvarpinu með hátterni sem augljóslega var ekki forseta Alþingis sæmandi. Það þarf ekki að taka það fram að Miðflokkurinn hafnar alfarið hugmyndum um Hálendisþjóðgarð og mun halda áfram að berjast gegn þeim.

Af hverju skyldi það vera? Jú, frumvarpið sjálft svarar því, en þar kemur orðið „ráðherra“ hvorki meira né minna en 75 sinnum fyrir! Er til skýrari vitnisburður um að ráðherra ætlar sér að taka yfir umgengnis- og yfirráðarétt þjóðarinnar á hálendi landsins? Ef frumvarpið verður samþykkt í óbreyttri eða lítið breyttri mynd, mun það bitna á þjóðinni um ókomna tíð. Miðflokkurinn hafnar svona vinnubrögðum og vill halda áfram að styðja við verndar og uppbyggingarstarf heimamanna um allt land.

Miðstýringarárátta

Almenningur í landinu hefur skilning á því að bera þurfi virðingu fyrir hálendinu, mikilvægt sé að ganga vel um það og nýta á skynsamlegan hátt. Í frumvarpi ráðherrans sem eins og fyrr segir var stutt af forystumönnum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, er engin tenging við þessa sýn almennings. Í frumvarpinu og greinargerðinni sem fylgir má finna á fimmtíu blaðsíðum undarlegar lýsingar á því, lýsingar sem verður best lýst sem hugarórum umhverfisráðherra. Af greinargerðinni mátti einnig sjá að lítið sem ekkert tillit var tekið til athugasemda og ábendinga sveitarfélaga, sérfræðinga og almennings við fyrirkomulag fyrirhugaðs Hálendisþjóðgarðs. Í raun var þeim sagt stríð á hendur, miðstýringaráráttan var alger.

Það blasir við núna að útfærsla ráðherra hefur gjörsamlega mislukkast og óþægilega margar af greinum frumvarpsins orka mjög tvímælis. Þar var meðal annars lagt til að umhverfisráðherra geti með reglugerð sett reglur af eigin geðþótta: „um dvöl, umgengni og umferð í Hálendisþjóðgarði, þ.m.t. tjöldun og umferð gangandi, ríðandi og hjólandi vegfarenda, sem og um umferð vélknúinna ökutækja, báta, skipa, loftfara, flygilda og hvers konar annarra farartækja í þjóðgarðinum“. Auk þessa er ráðherra: „heimilt að banna akstur vélknúinna ökutækja á einstökum svæðum þjóðgarðsins allt árið um kring eða á tilteknum tímum ársins“.

Fleiri greinar frumvarpsins eru undarlegar og margar þeirra bera þess merki að lítið hafi verið tekið mark á þeim ábendingum og athugasemdum sem þó komu fram í hinu svokallaða samráðsferli. Í þeim greinum Hálendisfrumvarpsins, sem fjallað er um stjórnun, eignarhald, valdheimildir, boð og bönn o.s.frv., kemur fram stjórnlyndi af stærðargráðu sem ekki hefur áður sést hér á landi. Og það gert með samþykki forystumanna Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks!

Nú er mál að linni

Með öllu þessu brambolti var reynt að fórna samstöðu þjóðarinnar um hálendi Íslands, allt vegna ásóknar breyskra manna í völd, manna sem samþykktu í stjórnarsáttmála að flýta stofnun Hálendisþjóðgarðs, hvernig sem það yrði gert og hvað sem það kostaði, í skiptum fyrir nokkra ráðherrastóla - og bílstjóra. Stjórnlyndið og þær takmarkanir á athafnafrelsi sem komu fram í Hálendisfrumvarpinu ættu að verða mönnum víti til varnaðar.

Kæru landsmenn, Miðflokkurinn er eini flokkurinn sem hafnar afdráttarlaust hugmyndum um Hálendisþjóðgarð og mun halda áfram að berjast gegn þeim hugmyndum ásamt því að verja ferðafrelsi landsmanna, í eigin landi.

Höfundur er byggingarverkfræðingur og skipar 2. sæti á lista Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

birtist fyrst í Skoðun á visir.is - 2. september 2021


Endurreisum Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins!

Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins (Rb) stofnuð 1965, var formlega tekin af lífi þann 1. júlí síðastliðinn. Til verksins var fenginn ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar. Félagsmálaráðuneytið undir stjórn barnamálaráðherra sá um jarðsetninguna.


Rb eins og stofnunin var kölluð í daglegu tali átti sér nokkuð langa og merkilega sögu. Hún varð til í kjölfar setningu laga um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, nr. 64/1965. Samkvæmt þeim lögum var kveðið á um að verkefni Rb ættu að vera: „kynning á niðurstöðum rannsókna og veiting upplýsinga um byggingafræðileg efni“. Auk þess voru á verkefnaskrá Rb, húsnæðis- og byggingamál, vegagerð, steypurannsóknir, jarðvegsathuganir, útgáfa og kennsla.

Frá upphafi lagði stofnunin mikla áherslu á útgáfu sérfræðirita og leiðbeiningablaða fyrir byggingariðnaðinn. Þau rit byggðu oftar en ekki á niðurstöðum langtímaverkefna sem unnin voru á vegum stofnunarinnar eða í samstarfi við aðrar ríkisstofnanir eins og Vegagerðina. Steinsteypu-rannsóknirnar sem dæmi og þróun á gerð steinsteypu sem stofnunin vann að á líftíma sínum eru hvorki meira né minna en heimsfrægar á sviði byggingarverkfræðinnar. Í sérfræðiritunum var einnig ítarlega fjallað um ýmis málefni byggingariðnaðarins auk þess sem stofnunin gaf út verklýsingar og byggingavísitölur í samstarfi við Hagstofuna. Útgáfu sérfræðiritanna lauk að mestu árið 2007 er dauðastríð Rb hófst, með innlimun stofnunarinnar í Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Dauðastríðinu er nú lokið. Upprisu og endurreisnar Rb er krafist.

 

Tómas Ellert Tómasson, byggingarverkfræðingur og skipar 2. sæti á lista Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi Norður.
Greinin birtist á Vísi þann 1. ágúst, 2021


List í Árborg

-Grein birt í Sunnlenska fréttablaðinu 2. maí 2013- 

Hagleiksfólk er víða í sveitarfélaginu. Það fólk sem stundar alþýðulist er að mestu áhugafólk sem nostrar við sín listaverk.

Í flestum tilvikum er þetta fólk sem ekki selur sín verk og er ekki með gróðasjónarmið að leiðarljósi, heldur frekar sköpun og skemmtilegheit fyrir okkur hin. Það sem einkennir fólk sem stundar og gerir útilistaverk svo skemmtileg er að það lætur efniviðinn oft um að ráða endanlegri útkomu.

Hvað getur sveitarfélagið gert til hjálpar?
Sveitarfélagið getur veitt þessu fólki svæði þar sem þau geta unnið verk sín. Í Árborg eru nokkuð mörg og stór landssvæði þar sem þessir listamenn okkar geta unnið sína vinnu. Sem dæmi þá eru stór svæði við Hellismýrarhelli og á Snæfoksstöðum sem hægt væri að nýta fyrir hverskonar úti alþýðulist s.s. tréskurð, steinsmíði osfrv..

Aðdráttarafl
Það mætti hugsa sér að Skógrækt Selfoss tæki þátt í verkefninu og útvegaði þessu fólki vinnusvæði á sínu yfirráðasvæði. Skógræktarfólk eru að hluta alþýðulistamenn er auðga okkar líf. Það fólk hefur lagt mikið á sig til að fegra umhverfi okkar. Sama á við um alþýðulistamennina. Aðdráttarafl þessa fólks og samvinna gæti komið sveitarfélaginu vel. Ég vona innilega að Sveitarfélagið Árborg sýni okkar alþýðulistafólki stuðning í formi anda og landsvæðis.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Landsmót UMFÍ 2012 og 2013 á Selfossi

-Grein birt í Sunnlenska og Dagskránni 4. apríl 2012-

Landsmót UMFÍ eru stærstu íþróttaviðburðir landsins ár hvert. Það má búast við um fimmtán til tuttugu þúsundum gestum á Selfoss þá daga sem mótin eru haldin. Selfoss er upplagður staður til að taka á móti þessum fjölda. Hér er allt til alls, svo sem þjónusta, veitingastaðir, verslanir, nýtt glæsilegt tjaldstæði, íþróttaaðstaða í miðjum bænum sem er á heimsmælikvarða og svo mætti lengi telja.  Nándin við höfuðborg Íslands, Reykjavík, gerir verkefnið mjög spennandi fyrir okkur íbúana, því búast má við miklum fjölda fólks þaðan. Varlega áætlað er þumalfingursreglan sú í ferðamannaiðnaðinum að hver gestur gefur af sér um þrjúþúsund krónur á dag sem þýðir að um 45-60 milljónir spýtast inn í hagkerfi okkar Selfyssinga á degi hverjum eða samanlagt fyrir þessa fjóra daga um 180-240 milljónir!. Þetta eru háar upphæðir sem rekstraraðilum í bæjarfélaginu munar mikið um.

Starfshópur Sveitarfélagsins Árborgar

Þann tólfta ágúst 2010 skipaði bæjarráð Sveitarfélagsins Árborgar starfshóp vegna Unglingalandsmóts UMFÍ sumarið 2012 og Landsmóts UMFÍ 2013. Í hópinn voru skipaðir Tómas Ellert Tómasson sem formaður hópsins, Helgi S. Haraldsson og formenn eftirtalinna nefnda: framkvæmda- og veitustjórnar, skipulags- og byggingarnefndar, íþrótta- og tómstundanefndar auk framkvæmdastjóra Sveitarfélagsins. Einnig hefur vallarnefnd UMFS komið að málum við ákvörðunartöku.  Starfshópurinn hefur haldið fjölda funda um það hvernig best er að ráðstafa þeim fjármunum sem í boði eru frá Sveitarfélaginu og Ríkissjóði. Vinnan hefur gengið vel og nú er svo komið að glæsilegt tjaldsvæði við Suðurhóla hefur litið dagsins ljós, boðin hefur verið út annar áfangi stúkubyggingar og hluti af lóðarfrágangi á íþróttavallarsvæði. Keypt hafa verið öll nauðsynleg áhöld og tæki fyrir frjálsar íþróttir og knattspyrnu. Keppnisgólfið í Vallaskóla verður endurnýjað í sumar. Auk þessa hafa verið lagðir töluverðir fjármunir í einn af bestu reiðvöllum landsins hjá Sleipni, aðstöðu við mótorkrossbraut utan ár og aðstöðu fyrir bardagaíþróttafólk UMFS.    

Mikill áhugi pólitískt kjörna fulltrúa og starfsmanna Sveitarfélagsins Árborgar

Bæjarráð samþykkti á dögunum að skipa þjónustuhóp landsmóta. Verkefni hópsins eru m.a. að sjá til þess að þjónustuþáttur og aðkoma að bænum verði eins og best verður á kosið á meðan mótunum stendur. Í því felst m.a. að salernis- og þvottaaðstaða gesta sé viðunandi. Einnig þá á hópurinn að kalla til sín fulltrúa verslunar- og þjónustu og aðra hagsmunaaðila og íbúa til að tryggja aðkomu sem flestra að Landsmótunum. Líkt og íbúar Sveitarfélagsins vita, þá fer bæjarráð ásamt framkvæmdastjóra Sveitarfélagsins með framkvæmdastjórn bæjarins og því mjög ánægjulegt til þess að vita að þau ætli sér að taka virkan þátt í undirbúningi og skila af sér óeigingjarnri vinnu á meðan mótunum stendur.

HSK/Ungmennafélag Selfoss

Stjórn Héraðssambandsins Skarphéðins skipaði fyrir nokkrum misserum síðan Landsmótsnefnd vegna Landsmóta 2012 og 2013. Stjórnin skipaði Þóri Haraldsson sem formann nefndarinnar, en ásamt formönnum og stjórnum HSK og UMFS er nokkuð ljóst að framkvæmd mótanna verður í góðum höndum. Mikils metnaðar hefur orðið vart í herbúðum HSK og UMFS manna sem smitað hefur útfrá sér. Nú eru Sveitarstjórnarmenn í Árborg farnir að ræða sín á milli hvort ekki eigi að skipa menningarhóp. Menning og íþróttir eiga nefnilega vel saman.  Menningarnefnd Sveitarfélagsins Árborgar hefur gert kraftaverk að undanförnu í að kynna menningu okkar og ekki síst að virkja íbúa til þátttöku ýmissa viðburða og því gleðilegt ef nefndin sér sér fært um að ljá íbúum krafta sína næstu tvö sumur.

Gleðilega Páska,
Tómas Ellert Tómasson
Formaður Starfshóps Sveitarfélagsins Árborgar vegna Landsmóta 2012 og 2013

15. Unglingalandsmót UMFÍ 2012 á Selfossi

-Grein birt í Sunnlenska Fréttablaðinu 22. des. 2011-

Unglingalandsmót UMFÍ eru á meðal stærstu íþróttaviðburða landsins ár hvert og hafa unnið sér fastan sess sem ein stærsta fjölskylduhátíðin um hverja verslunarmannahelgi. Þannig má búast við að um metfjölda verði að ræða í sumar þar sem áætlanir gera ráð fyrir að um 15-20 þúsund gestir leggi leið sína til okkar, enda mótið notið sívaxandi vinsælda. Keppt er í fjölda íþróttagreina og haldnar skemmtanir fyrir unglingana og aðstandendur þeirra. Því má ljóst vera að Sveitarfélagið er að takast á hendur við mjög stórt verkefni.

Starfshópur Sveitarfélagsins

Í því skyni að sem best takist til, þá stofnaði Sveitarfélagið Árborg starfshóp til að undirbúa það sem best fyrir mótið. Í lok sumars 2010 var hópurinn skipaður og þá einnig til að undirbúa sveitarfélagið fyrir Landsmót UMFÍ 2013. Hlutverk starfshópsins er að vinna með Framkvæmdanefnd Landsmótanna. Starfshópinn skipa pólitískt kjörnir fulltrúar, formenn nefnda sem snúa að æskulýðs-, skipulags og framkvæmdamálum auk vallarstjórnar Ungmennafélags Selfoss og framkvæmdastjóra sveitarfélagsins. Helstu verkefni sem starfshópurinn stóð frammi fyrir og þarf að leysa eru: að aðstaðan til íþróttahalds, sem nú er til staðar að mestu, verði klár; einnig að tjaldstæði með tilheyrandi aðstöðu,  almenningssamgöngum, vatnslögnum, salernum og rafmagni verði tilbúin í tæka tíð. Frá því starfshópurinn var skipaður hafa verið haldnir á annan tug funda þar sem allir hafa lagt hönd á plóg við skipulagninguna og hvernig best sé að ráðstafa fjármunum í verkefnið.

Ánægjulegt sumar 2012

Það er von okkar meðlima í starfshópnum að við Selfyssingar og sunnlendingar allir getum tekið vel  á móti þessum fjölda gesta og að við getum verið sem ánægðust með hvernig til tekst. Hér á svæðinu er hefð fyrir öflugu félags- og sjálfboðaliðastarfi og höfum við oft sýnt áður að við stöndum saman þegar mest á reynir. Því er enginn efi í mínum huga að við öll komum til með að eiga ánægjulegt sumar 2012.

Sjá einnig myndir hér að neðan...flottar myndir :)


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Selfossvirkjun

-Grein birt í Dagskránni 16. desember 2010-

Hugmyndin um virkjun Ölfusár við Selfoss er ekki ný af nálinni. Upp úr 1950 var möguleiki á Selfossvirkjun skoðaður ásamt fleiri virkjunarkostum á Hvítár/Ölfusársvæðinu. Þá var ráðgert að stífla Ölfusá neðst við Selfoss, þvert á núverandi staðsetningu kirkjugarðsins. Hugmyndin var sú að stöðvarhúsið ætti að vera staðsett við vestari bakkann, í sjálfri stíflunni. Uppistöðulón sem hefði myndast fyrir ofan stífluna hefði teygt sig upp að Laugardælaeyju og haft veruleg áhrif á grunnvatnsstöðu við Selfossbæ. Þessi framkvæmd hefði einnig þýtt mikla varnargarða og töluverð sjónræn áhrif. Selfossvirkjun var talin síður hagkvæm en aðrir virkjunarkostir á þeim tíma og því varð ekkert úr framkvæmdinni.

Af hverju er verið að skoða þennan virkjunarkost núna?

Vegna fyrirhugaðrar byggingar nýrrar brúar yfir Ölfusá norðan við Selfoss, þá blasir við að nýta megi það mannvirki einnig sem stíflugarð með flóðgáttum. Með samnýtingu og þátttöku Vegagerðarinnar við verkið, verður þessi virkjunarhugmynd hagkvæmari en margir aðrir kostir sem verið er að skoða á landinu. Á samgönguáætlun er ráðgert að hefja gerð nýrrar brúar árið 2013. Ef hugmyndin er ekki könnuð áður en ráðist yrði í byggingu brúarinnar, þá verður ekkert af virkjun.

Virkjunargerð

Hugmyndin er sú að Selfossvirkjun verði umhverfisvæn rennslisvirkjun. Með rennslisvirkjun er átt við virkjun þar sem lítil sem engin söfnun er á vatni, þ.e. ekkert uppistöðulón og raforkuvinnsla einskorðast þá eingöngu við rennsli árinnar hverju sinni. Til að framleiða rafmagn þarf aðeins tvennt til, rennsli og fallhæð. Meðalrennsli Ölfusár við Selfoss er um 380 m3/sek, þar af koma um 100m3/sek frá Soginu. Virkjunin nyti því mikils jafns rennslis og miðlunar frá Sogsvirkjunum. Fallhæð árinnar er fremur lág á þeim kafla sem fyrirhuguð virkjun er hugsuð og næst mest um 10 metrar. Túrbínur rennslisvirkjana eru mjög ólíkar þeim hverflum sem notaðir eru t.d. í Búrfellsvirkjunum og Kárahnjúkum. Í stað snigils og mörg hundruð blaða skrúfu sem snýst á miklum hraða, þá eru einungis örfá blöð á hverflum rennslisvirkjunar er minna helst á stórar skipsskrúfur sem snúast mjög hægt. Ekki er komin niðurstaða í það hvort að vatninu verði veitt í göng og nái þar með 10 metra fallhæð eða nýti einungis fallhæðina sem næst við stífluna. Að fara í gangnagerð hefur þann kost að efnið úr göngunum nýtist í vegagerðina og minnkar þar með umhverfisáhrif þeirrar framkvæmdar þar sem ekki þarf að fara um langan veg til að ná í efni, auk þess sem raforkuvinnsla verður töluvert meiri og þar með arðsemin af framkvæmdinni meiri.  

Umhverfismál

Það er öllum ljóst sem koma að þessu verkefni að lífríki í og við ánna er viðkvæmt og Hvítá/Ölfusá er líklega hættulegasta flóðaá landsins. Tryggja þarf að seiði komist óhindruð til sjávar og að fiskur úr sjó komist á sínar heimaslóðir. Einnig þarf að leysa þau vandamál sem geta skapast af  jakaburði, krapastíflum og aurburði. Til eru ýmsar lausnir á þessum málum og benda má á að víða hefur tekist vel til að leysa slíka hluti bæði hér á landi sem og víða erlendis. Á framkvæmdatíma má gera ráð fyrir töluverðum sjónrænum áhrifum og raski sem fylgir slíkum framkvæmdum. Markmiðið er að þegar virkjunin yrði fullbúin þá séu umhverfisáhrif í lágmarki.

Spennandi kostur

Ljóst er að fjölmörg tækifæri skapast í samfélaginu í námunda við virkjunina ef þessi framkvæmd verður að veruleika. Má þar þá helst nefna aukna atvinnusköpun, aukningu í ferðamennsku, fræðslu um lífríki árinnar og auknar tekjur í sveitarsjóð. Á framkvæmdatíma má búast við um 600 beinum og afleiddum störfum og þegar framkvæmdum lýkur þá verða til ný tækifæri fyrir iðnaðarstarfsemi á Suðurlandi. Starfrækja má fræðslusetur um lífríki Ölfusár í stöðvarhúsinu. Með opnun þess og tengingu við göngu- og reiðleiðir á svæðinu má búast við að starfsemin muni auka ferðamannastraum og opna á meiri nálægð fólks við lífríkið í ánni. Íbúum Sveitarfélagsins Árborgar er ljóst að staða sveitarsjóðs í dag er ekki góð. Með tekjum af orkusölu má lagfæra þá stöðu allverulega og búa í haginn til framtíðar. Á tímum sem þessum þarf kjark og þor til að kanna og nýta sér þá möguleika sem felast í náttúru og gæðum landsins okkar. Þá er gott að hafa í huga að þó verkefnin virðist vera óleysanleg við fyrstu sýn, þá er lausnin alltaf í sjónmáli.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fjárhagsáætlanir og rekstrarniðurstöður Sveitarfélagsins Árborgar

-Grein birt í Dagskránni 23. september 2010-

Sveitastjórnum er skylt að gera fjárhagsáætlanir. Árlegar fjárhagsáætlanir eru skuldbindandi hvað varðar ráðstöfun fjármuna og fjármálastjórn sveitarfélagsins á því rekstrarári sem hún nær yfir. Þriggja ára áætlunum er ætlað að vera leiðbeinandi fyrir fjármálastjórn sveitarfélagsins og innihalda meiri óvissu en eins árs áætlanirnar.

Mikilvægi þekkingar á stöðu mála
Rekstur Sveitarfélagsins Árborgar er mjög erfiður um þessar mundir. Baukurinn er tómur og skuldirnar rúmlega ein milljón á hvern íbúa sveitarfélagsins. Því er mjög mikilvægt að allir hlutaðeigandi aðilar sem koma að fjármálastjórn Sveitarfélagsins Árborgar hafi víðtækan og sameiginlegan skilning á stöðunni. Í því sambandi er mikilvægt að menn kynni sér stöðuna, ræði hana sín á milli og nái sem mestri sátt um þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru. Ef menn hafa ekki sama skilning á stöðunni, er hætta á því að þeir sem eru á móti þeim breytingum sem nauðsynlegar eru vinni gegn þeim. Það má til dæmis gera með því að gera lítið eða mikið úr forsendum sem liggja að baki áætlunum og niðurstöðum milliuppgjöra. Forsenda þess að sveitarfélagið geti aðlagað rekstur sinn að núverandi umhverfi er sú að allir vinni saman að því að ná tökum á fjármálunum, hvar í flokki sem þeir standa, íbúunum til heilla.
 
Bætt rekstrarniðurstaða?
Það má þakka endurskoðendum og starfsmönnum sveitarfélagsins fyrir þann árangur sem kom fram í milliuppgjörinu sem nú var kynnt. Fasteignagjöld ársins eru nefnilega bókuð sem tekjur á fyrri hluta ársins samkvæmt venju, en ekki á seinni hluta ársins. Íbúar og bæjarfulltrúar vita að þær tekjur koma til með að dreifast jafnt yfir árið. Því gefur milliuppgjörið ekki raunhæfa mynd af stöðunni. Ekki er tilefni til að hoppa hæð sína í loft upp af kæti yfir þessu milliuppgjöri heldur er réttara að halda sér á jörðinni og sjá hvernig útkoman verður í lok árs.

Líkt og ríflega 3200 manns geti ekki sturtað niður og baðað sig

Til að setja þennan leka í e-ð samhengi þá er meðalrennsli húsaskolps á íbúa 0.0031 lítrar/sekúndu samkvæmt hönnunarleiðbeiningum OR eða 270 lítrar á dag. Rennsli upp á 10 lítra á sekúndu jafngildir því vatnsmagni sem um 3.200 manns nota daglega til að sturta niður úr klósettinu, fara í bað, þvo þvotta osfrv.. .


mbl.is Íbúar í Árborg spari vatnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband