Landsmót UMFÍ 2012 og 2013 á Selfossi

-Grein birt í Sunnlenska og Dagskránni 4. apríl 2012-

Landsmót UMFÍ eru stærstu íþróttaviðburðir landsins ár hvert. Það má búast við um fimmtán til tuttugu þúsundum gestum á Selfoss þá daga sem mótin eru haldin. Selfoss er upplagður staður til að taka á móti þessum fjölda. Hér er allt til alls, svo sem þjónusta, veitingastaðir, verslanir, nýtt glæsilegt tjaldstæði, íþróttaaðstaða í miðjum bænum sem er á heimsmælikvarða og svo mætti lengi telja.  Nándin við höfuðborg Íslands, Reykjavík, gerir verkefnið mjög spennandi fyrir okkur íbúana, því búast má við miklum fjölda fólks þaðan. Varlega áætlað er þumalfingursreglan sú í ferðamannaiðnaðinum að hver gestur gefur af sér um þrjúþúsund krónur á dag sem þýðir að um 45-60 milljónir spýtast inn í hagkerfi okkar Selfyssinga á degi hverjum eða samanlagt fyrir þessa fjóra daga um 180-240 milljónir!. Þetta eru háar upphæðir sem rekstraraðilum í bæjarfélaginu munar mikið um.

Starfshópur Sveitarfélagsins Árborgar

Þann tólfta ágúst 2010 skipaði bæjarráð Sveitarfélagsins Árborgar starfshóp vegna Unglingalandsmóts UMFÍ sumarið 2012 og Landsmóts UMFÍ 2013. Í hópinn voru skipaðir Tómas Ellert Tómasson sem formaður hópsins, Helgi S. Haraldsson og formenn eftirtalinna nefnda: framkvæmda- og veitustjórnar, skipulags- og byggingarnefndar, íþrótta- og tómstundanefndar auk framkvæmdastjóra Sveitarfélagsins. Einnig hefur vallarnefnd UMFS komið að málum við ákvörðunartöku.  Starfshópurinn hefur haldið fjölda funda um það hvernig best er að ráðstafa þeim fjármunum sem í boði eru frá Sveitarfélaginu og Ríkissjóði. Vinnan hefur gengið vel og nú er svo komið að glæsilegt tjaldsvæði við Suðurhóla hefur litið dagsins ljós, boðin hefur verið út annar áfangi stúkubyggingar og hluti af lóðarfrágangi á íþróttavallarsvæði. Keypt hafa verið öll nauðsynleg áhöld og tæki fyrir frjálsar íþróttir og knattspyrnu. Keppnisgólfið í Vallaskóla verður endurnýjað í sumar. Auk þessa hafa verið lagðir töluverðir fjármunir í einn af bestu reiðvöllum landsins hjá Sleipni, aðstöðu við mótorkrossbraut utan ár og aðstöðu fyrir bardagaíþróttafólk UMFS.    

Mikill áhugi pólitískt kjörna fulltrúa og starfsmanna Sveitarfélagsins Árborgar

Bæjarráð samþykkti á dögunum að skipa þjónustuhóp landsmóta. Verkefni hópsins eru m.a. að sjá til þess að þjónustuþáttur og aðkoma að bænum verði eins og best verður á kosið á meðan mótunum stendur. Í því felst m.a. að salernis- og þvottaaðstaða gesta sé viðunandi. Einnig þá á hópurinn að kalla til sín fulltrúa verslunar- og þjónustu og aðra hagsmunaaðila og íbúa til að tryggja aðkomu sem flestra að Landsmótunum. Líkt og íbúar Sveitarfélagsins vita, þá fer bæjarráð ásamt framkvæmdastjóra Sveitarfélagsins með framkvæmdastjórn bæjarins og því mjög ánægjulegt til þess að vita að þau ætli sér að taka virkan þátt í undirbúningi og skila af sér óeigingjarnri vinnu á meðan mótunum stendur.

HSK/Ungmennafélag Selfoss

Stjórn Héraðssambandsins Skarphéðins skipaði fyrir nokkrum misserum síðan Landsmótsnefnd vegna Landsmóta 2012 og 2013. Stjórnin skipaði Þóri Haraldsson sem formann nefndarinnar, en ásamt formönnum og stjórnum HSK og UMFS er nokkuð ljóst að framkvæmd mótanna verður í góðum höndum. Mikils metnaðar hefur orðið vart í herbúðum HSK og UMFS manna sem smitað hefur útfrá sér. Nú eru Sveitarstjórnarmenn í Árborg farnir að ræða sín á milli hvort ekki eigi að skipa menningarhóp. Menning og íþróttir eiga nefnilega vel saman.  Menningarnefnd Sveitarfélagsins Árborgar hefur gert kraftaverk að undanförnu í að kynna menningu okkar og ekki síst að virkja íbúa til þátttöku ýmissa viðburða og því gleðilegt ef nefndin sér sér fært um að ljá íbúum krafta sína næstu tvö sumur.

Gleðilega Páska,
Tómas Ellert Tómasson
Formaður Starfshóps Sveitarfélagsins Árborgar vegna Landsmóta 2012 og 2013

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband