Sameinum krafta og byggjum upp
Mánudagur, 10. maí 2010
-Grein birt í Sunnlenska fréttablaðinu 6. maí 2010-
Í aðdraganda kosninga berast inn um bréfalúgur kjósenda stefnuskrár ýmissa framboðslista sem eru afrakstur málefnastarfs þeirra. Stefnumál listana fyrir sveitarstjórnakosningar hafa sýnt sig að vera oftast keimlík. Ástæða þessa er að um er að ræða málaflokka sem varða nærþjónustu við íbúa sem í allflestum tilfellum eru lögbundin og vel skorðuð af ríkisvaldinu. Áherslur eru þó oft mismunandi og þá helst um hvernig eigi að útfæra og sinna þeim hlutverkum sveitarfélagsins. Til að geta sinnt sínum lögbundnu hlutverkum þá er grundvallar atriði að rekstur sveitarfélagsins og ákvarðanataka sé í lagi að öðrum kosti getur sveitarfélagið ekki sinnt þeim og þar með gerst lögbrjótur.
Hrunið
Því miður hefur fráfarandi bæjarstjórnarmeirihluta B, S og V lista á yfirstandandi kjörtímabili ekki auðnast að halda rekstrinum og ákvarðanatökunum í lagi. Hruni Sveitarfélagsins Árborgar á kjörtímabilinu er ekki um að kenna stærsta bankaráni íslandssögunnar, heldur miklu frekar misráðnum ákvörðunum og vitlausum fjárfestingum bæjarstjórnarmeirihlutans. Dæmi um sóun og óráðsíu eru meðal annars: kaup á Pakkhúsinu, að glata 130 milljónum af fé okkar íbúana í áhættusjóði, Miðjumálið þar sem útlagður kostnaður sveitarfélagsins er um 100 milljónir króna, óhóflega dýr skólabygging á Stokkseyri sem enn er ekki lokið, samningur um útilistaverk við Ölfusárbrú sem aldrei var klárað, niðurgreiðsla á bæjarhátíð í öðru sveitarfélagi, hæstu bæjarstjóralaun landsins og tæknilegt gjaldþrot bæjarsjóðs 2010. Hvað varðar skrítnar ákvarðanatökur og tilkynningar ýmis konar sem vekja furðu íbúana má nefna: lokun sundlauga á frídögum, lokun á tilbúnum leikskólaplássum, bygging Þekkingargarða boðuð á blaðamannafundi sem átti að útvega 200-300 störf eftir "rán", kaffi á opinberum stöðum aftekið og það nýjasta að leysa biðlista á leikskólum með því að taka fé af liðnum "óráðstafað" í fjárhagsáætlun. Um fráfarandi bæjarstjórnarmeirihluta má samt segja til hróss að hann sá villu síns vegar hvað varðar framtíðarstaðsetningu íþróttavallarsvæðisins á Selfossi.
Uppbygging
Í dag er nauðsyn að þeir sem bjóða fram krafta sína og ná kosningu í sveitarstjórn sameini krafta og vinni saman að velferð íbúana með því að snúa rekstri sveitarfélagsins við. Það er hægt að gera með skynsamlegum og réttum ákvörðunum. Ef menn vinna saman þá verður sú vinna mun auðveldari. Það er einfaldlega lífsnauðsyn fyrir okkur íbúana að verðandi bæjarstjórnarfólk séu með uppbrettar ermar og taki á málum með hugrekki og bjartsýni að vopni, því þá eru lifandi mönnum allir vegir færir. Orð Jóns Sigurðssonar eiga nefnilega svo vel við í dag sem aldrei fyrr sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér" eða á íþróttamáli sundraðir gutlum við í neðstu deild, sameinaðir spilum við í úrvalsdeild".
Athugasemdir
Ásdís Sigurðardóttir, 10.5.2010 kl. 14:01
Góður!
Jón Þórðarson (IP-tala skráð) 10.5.2010 kl. 14:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.