Sögulegir tímar hjá Ungmennafélagi Selfoss
Laugardagur, 17. apríl 2010
-Grein birt í Sunnlenska fréttablaðinu 15. apríl 2010-
Í fyrsta sinn í sögunni eigum við Selfyssingar á sama tíma lið í efstu deild í þeim tveimur boltaíþróttagreinum sem mestan iðkendafjölda hafa á landinu þ.e. handbolta og fótbolta. Handknattleiksmenn hafa áður spilað í deild þeirra bestu með eftirminnilegum árangri en knattspyrnumenn eru þar í fyrsta sinn. Sannarlega glæsilegur árangur hjá metnaðarfullum iðkendum og aðstandendum sem hafa unnið þrotlaust og markvisst starf undanfarin ár. Árangurinn er einnig merkilegur fyrir þær sakir hversu sveitarfélagið hefur látið hlutfallslega lítið af skattfé sínu renna til æskulýðs- og íþróttamála á undanförnum árum. Hlutfall æskulýðs- og íþróttamála af skatttekjum í Sveitarfélaginu Árborg hefur undanfarin ár verið 6-7% fór reyndar í 9% árið 2008 á meðan að þetta hlutfall er viðvarandi 11-13% hjá sveitarfélögum sem staðsett eru á vaxtarsvæðum utan höfuðborgarsvæðisins. Í þeim sveitarfélögum ásamt Reykjavík eru staðsettir okkar helstu keppinautar á sviði afreksíþróttanna.
Sjálfboðaliðastarfið dýrmætt
Í íþróttahreyfingunni á landsvísu er talið að nálægt 20.000 sjálfboðaliðar starfi í stjórnum og nefndum, fyrir utan þann fjölda sem kemur að starfinu á annan hátt. Ef vinnuframlag þessa fólks er metið á um 200.000 krónur á ári, sem er ekki fjarri lagi, þá er heildarframlag stjórnar- og nefndarmanna á landsvísu rúmir 4 milljarðar króna á ári. Því má ljóst vera að það starf sem sjálfboðaliðar í Ungmennafélagi Selfoss vinna á hverju ári megi meta á tugi milljóna og sé umfram það sem gerist á landsvísu ef miðað er við lág framlög sveitarfélagsins. Þeim sem starfa að og fylgjast með íþróttastarfi vita að þátttaka í íþróttastarfi ýtir undir vináttutengsl og traust þar sem starfið byggir á skýrum reglum í leik og starfi. Einnig er almennt viðurkennt og vitað að íþróttir eru hagkvæmar fyrir samfélagið. Því má fullyrða að Ungmennafélag Selfoss sé ein af uppeldisstofnunum sveitarfélagsins sem ber að hlúa að og styrkja. Að lokum vil ég óska ykkur til hamingju með árangurinn!.
Athugasemdir
Flott
Ásdís Sigurðardóttir, 17.4.2010 kl. 14:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.