Markaðssetning og kynningarstarf í Sveitarfélaginu Árborg

-Grein birt í Dagskránni 25. febrúar 2010-

Vegna umræðu í sveitarfélaginu um markaðs- og kynningarstarf ákvað undirritaður að gera rannsókn á því hvernig umfjöllun um hina ýmsa byggðarkjarna landsins hefur þróast frá árinu 1950 og hvort hún sé í takti við íbúaþróun á hverjum stað fyrir sig. Þessi rannsókn var gerð með hjálp upplýsinga frá Hagstofunni og vefsíðunnar timarit.is en hún veitir aðgang að prentuðum blöðum og tímaritum frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi á stafrænu formi, þar sem notendur geta leitað að efni á ýmsan hátt, svo sem eftir titlum, löndum eða völdum orðum í öllum texta ritanna. Hér verður gerð grein fyrir helstu niðurstöðum um byggðarkjarnana í Sveitarfélaginu Árborg.

Morgunblaðið góð heimild

Ef sett eru inn nöfn byggðarkjarnanna í leitarslóð og fallbeygingar þeirra orða sést hve oft þau koma fyrir í hinum ýmsu blöðum og tímaritum. Fjöldi leitarniðurstaðna er mestur í Morgunblaðinu. Sá prentmiðill hefur komið út samfleytt frá árinu 1913 og er því nokkuð góð heimild um umfjöllunarefni líðandi stundar á hverjum tíma.

Fjöldi leitarniðurstaðna

Fjöldi leitarniðurstaðna á árabilinu 1950 til 2009 sést á súluritinu fyrir hvern byggðarkjarna í Sveitarfélaginu Árborg ásamt Árborgar heitinu sjálfu. Það sem er athyglisvert að sjá er að það er stöðug aukning á umfjöllun um byggðarkjarnana í Árborg. Það kemur að einhverju leyti til af því að Morgunblaðið stækkar að umfangi og efnistökum og einnig af því að umfjöllun almennt hefur aukist um byggðarkjarnana í áranna rás.

Aukning umfjöllunar milli áratuga

Á línuritinu sést aukning umfjöllunar á hverju tíu ára tímabili í byggðarkjörnum Árborgar. Eins og sést á línuritinu þá er um 100% aukning á umfjöllun um Selfoss frá áttunda til níunda áratugar síðustu aldar og um 90% aukning á milli níunda og tíunda áratugar fyrir Eyrarbakka. Á þessum árum var Selfoss nýbúið að öðlast kaupstaðarréttindi og ungi kaupstaðurinn auglýsti staðinn grimmt sem miðstöð samgangna og ferðaþjónustu tengdri höfuðborginni með hraðbraut, þar var allt Suðurland lagt undir. Þá eru ótaldar þær sýningar sem voru hér þ.e. landbúnaðarsýningin, iðnsýningar o.s.frv. og því var slegið upp í prentmiðlum að það þætti einstakt að hér þrifust 65 iðnfyrirtæki í 3000 manna bæ. Íbúafjölgun varð hér mikil og þótti mikið fagnaðarefni að hún væri stöðugt yfir landsmeðaltali.

Hvað gerist svo?

Meðalaukning umfjöllunar á milli áratuga í Morgunblaðinu hjá þessum 3 byggðarkjörnum yfir 60 ára tímabil er 44%. Ef litið er til síðustu tveggja áratuga sést að hlutfallsleg aukning umfjöllunar á milli áratuga hefur lækkað umtalsvert um Selfoss og Eyrarbakka en hækkað fyrir Stokkseyri. Væntanlega hefur umfjöllunin aukist um Stokkseyri vegna kraftmikils starfs einkaaðila þar, sem hafa verið duglegir við að auglýsa staðinn. Þessar leitarniðurstöður gefa ákveðnar vísbendingar um að þeir sem annast markaðs- og kynningarstarf sveitarfélagsins fyrir hönd byggðarkjarna sinna þurfa að girða sig í brók. Markaðssetning og kynningarstarf á byggðarkjörnum sveitarfélagins má nefnilega ekki mæta afgangi. Það er því nauðsyn að sýna kjark og þor og snúa þessari þróun við í samstarfi við fyrirtæki, verslunareigendur og þjónustuaðila í sveitarfélaginu til heilla fyrir okkur íbúana.

 

       
Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér efni skýrslunnar frekar og gera samanburð við aðra byggðarkjarna landsins geta haft samband við undirritaðan í síma 866 3684 eða með því að senda tölvupóst á netfangið ellert@verkarborg.is frá og með mánudeginum 1 mars.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Hvaða sæti býður þú þig fram í Ellert? er komin út skrá um í hvaða sæti allir bjóða sig?

Ásdís Sigurðardóttir, 27.2.2010 kl. 13:33

2 Smámynd: Tómas Ellert Tómasson

Ég óska eftir stuðningi í 3. sæti.

Það kemur út kynningarrit í vikunni þar sem það kemur væntanlega fram í hvaða sæti hver og einn sækist eftir.

Tómas Ellert Tómasson, 27.2.2010 kl. 19:43

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Takk fyrir

Ásdís Sigurðardóttir, 27.2.2010 kl. 21:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband