Skuldir Árborgar

-Grein birt í Dagskránni 27. nóvember 2009-

Skuldastaða Sveitarfélagsins Árborgar er mikið áhyggjuefni fyrir okkur íbúana. Skuldasöfnun sveitarfélagsins hefur stóraukist á síðastliðnum árum á hvern íbúa eins og sjá má af súluriti. Samkvæmt súluritinu sem unnið er upp úr ársreikningum sveitarfélagsins og endurskoðaðri fjárhagsáætlun fyrir árið 2009 sem samþykkt var á bæjarstjórnarfundi þann 11 nóvember síðastliðinn, sést að skuldir bæjarsjóðs utan lífeyrisskuldbindinga per íbúa hafa nærri tvöfaldast, úr 402 þúsundum í árslok 2006 í 793 þúsund í árslok 2009. Ef lífeyrisskuldbindingar og skuldir fyrirtækja í eigu sveitarfélagsins eru teknar með þá skuldar hver íbúi ríflega 1100 þúsund krónur, samkvæmt sömu gögnum. Lítt er hægt að kenna gengisfalli íslensku krónunnar um þar sem staða lána sveitarfélagsins í erlendri mynt eru aðeins um 16% af heildarskuldum. Til að setja þessa grafalvarlegu skuldastöðu í eitthvað samhengi þá eru skuldbindingar íslenska ríkisins vegna Icesave reikningana margumtöluðu, 1115 þúsund krónur per íbúa ef endurheimt eigna Landsbankans verður 75%.

Eiga lánastofnanir skráðar eignir sveitarfélagsins?
Samkvæmt endurskoðaðri fjárhagsáætlun fyrir árið 2009, kemur í ljós að bæjarsjóður á einungis 4.7% í skráðum eignum sínum. Þetta þýðir að bankar, lífeyrissjóðir og aðrar lánastofnanir eiga 95.3% af eignum Sveitarfélagsins Árborgar, því væntanlega hafa þær tekið veð fyrir lánunum. Því má segja að lánastofnanirnar leigi sveitarfélaginu fasteignirnar í raun í formi vaxta og annars bankakostnaðar s.s. lántökugjalda, tilkynningar- og greiðslugjalda, afgreiðslugjalda, umsjónargjalda, reikningsyfirlita, veðbókavottorða, umsýslugjalda og þinglýsingar- og stimpilgjalda sem rennur síðan til sýslumanns. Þar sem þessar eignir eru skráðar á sveitarfélagið þá borgar bæjarsjóður af þeim öll gjöld og rekstrarkostnað s.s. hita, fasteignagjöld sem að vísu renna aftur í bæjarsjóð og rafmagn sem rennur ekki til bæjarsjóðs þar sem sveitarfélagið hefur selt frá sér rafveituna. Í ljósi þessa þá má spyrja sig þeirrar spurningar hver er munurinn á að leigja fasteignir af bönkum og lánastofnunum eða fasteignafélögum sem eru í eigu sjálfra sveitarfélaganna?

Óheppnin eltir bæjaryfirvöld

Óheppnin eltir bæjaryfirvöld á röndum. Á meðan sveitarfélög á vaxtarsvæðum utan höfuðborgarsvæðisins komast þokkalega frá rekstri og eiga handbært fé til að greiða niður skuldir, þá tapar Sveitarfélagið Árborg rúmlega 1800 milljónum. Því miður fyrir okkur íbúana þá lentu bæjaryfirvöld í fleiru. Bæjaryfirvöld lentu í að ráða pólitískan bæjarstjóra, þau lentu í því að íbúum fjölgaði, þau lentu undir þrýstingi sem leiddi af sér arðlausar fjárfestingar, þau lentu í að glata 130 milljónum af fé okkar íbúana í áhættusjóði, þau lentu í því að eigið fé sveitarfélagsins er að hverfa og þau lentu í því að skuldirnar eru að vaxa þeim yfir höfuð. Það er ekki nema von að við íbúarnir spyrjum okkur, í hverju lenda bæjaryfirvöld næst?

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband