Rekstur Sveitarfélagsins Árborgar er áhyggjuefni fyrir okkur íbúanna

-Grein birt í Dagskránni 29. október 2009-

Með því að rýna í gögn sem gerð voru aðgengileg á heimasíðu sambands íslenskra sveitarfélaga þann 19. október síðastliðinn, sést glöggt að rekstur Sveitarfélagsins Árborgar er í dag áhyggjuefni fyrir okkur íbúanna. Ef skoðuð er rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins í samanburði við þau 15 sveitarfélög sem mynda svokallað *vaxtarsvæði utan höfuðborgarsvæðisins ásamt Árborg, þá sést að á góðærisárinu 2007 drögumst við langt aftur úr viðmiðunar sveitarfélögunum hvað varðar rekstrarniðurstöðu sem hlutfall af tekjum. Meðan hin sveitarfélögin voru að skarta jákvæðu hlutfalli upp á að **meðaltali 39,2% var Árborg með hlutfall upp á 17,3%, þ.e. hin sveitarfélögin voru með ríflega tvöfalt betri rekstrarniðurstöðu. Árið 2008 er rekstrarniðurstaðan hinsvegar neikvæð um 25,9% hjá viðmiðunarsveitarfélögunum en enn verri hjá Árborg eða -35,2%. Það sem þetta þýðir í krónum og aurum er að rekstrarafgangur upp á 570 milljónir árið 2007 snérist í rekstrartap upp á 1208 milljónir árið 2008, eða viðsnúningur upp á 1808 milljónir!.

Er eigið féð að hverfa?
Sömu gögn sýna að rekstur Árborgar hefur verið í sæmilegu jafnvægi við hin sveitarfélögin undanfarin ár hvað varðar rekstrarkostnað sem hlutfall af tekjum eða í kringum +/-5%. Sem sagt, ekkert ofurósamræmi í líkingu við árin 2007 og 2008. Ef Árborg hefði haldið í við hin sveitarfélögin þá hefði staðan verið 1290 milljónir í rekstrarhagnað á árinu 2007 en rekstrartap upp á 890 milljónir árið 2008  þ.e. Árborg hefði skilað 400 milljónum í plús yfir þessi tvö ár. Í stað þess er rekstrartapið um 640 milljónir á tímabilinu, eða mismunur uppá rúmlega 1 milljarð sem rekstur Árborgar skilar lakari útkomu á tveimur árum en viðmiðunarsveitarfélögin! Hvar er þessi milljarður?. Eigið fé Sveitarfélagsins Árborgar í árslok 2008 nam um 1008 milljónum samkvæmt ársreikningi. Með sama áframhaldi dugar eigið féð ekki til ársloka 2010, hvað gerist þá?

Skýringa er þörf
Á meðan önnur sveitarfélög söfnuðu verulega í sarpinn á góðæristíma gerði Árborg það ekki. Hvað var það sem gerði það að verkum að rekstrarniðurstaða Árborgar varð svona mikið lakari en hjá hinum sveitarfélögunum? Hvað varð til þess að bæjaryfirvöld misstu að mestu af góðærinu en tóku „vondærið" með trompi umfram önnur sveitarfélög? Hvar og hvernig fóru bæjaryfirvöld útaf sporinu?  Þessi dapra niðurstaða þarfnast skýringa við.

 *Vaxtarsvæði utan höfuðborgarsvæðisins eru Reykjanesbær, Grindavíkurbær, Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður, Sveitarfélagið Vogar, Akraneskaupstaður, Hvalfjarðarsveit, Borgarbyggð, Akureyrarkaupstaður, Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað, Sveitarfélagið Árborg, Hveragerðisbær, Sveitarfélagið Ölfus, Grímsnes- og Grafningshreppur og Bláskógabyggð.

 **Sveitarfélagið Árborg er tekið með í meðaltölin sem gerir stöðuna verri fyrir viðmiðunarsveitafélögin, þ.e. útkoman hefði verið betri en 39,2% árið 2007 og betri en -25,9% árið 2008.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband