Færsluflokkur: Bloggar

Sögulegir tímar hjá Ungmennafélagi Selfoss

-Grein birt í Sunnlenska fréttablaðinu 15. apríl 2010-

Í fyrsta sinn í sögunni eigum við Selfyssingar á sama tíma lið í efstu deild í þeim tveimur boltaíþróttagreinum sem mestan iðkendafjölda hafa á landinu þ.e. handbolta og fótbolta. Handknattleiksmenn hafa áður spilað í deild þeirra bestu með eftirminnilegum árangri en knattspyrnumenn eru þar í fyrsta sinn. Sannarlega glæsilegur árangur hjá metnaðarfullum iðkendum og aðstandendum sem hafa unnið þrotlaust og markvisst starf undanfarin ár. Árangurinn er einnig merkilegur fyrir þær sakir hversu sveitarfélagið hefur látið hlutfallslega lítið af skattfé sínu renna til æskulýðs- og íþróttamála á undanförnum árum. Hlutfall æskulýðs- og íþróttamála af skatttekjum í Sveitarfélaginu Árborg hefur undanfarin ár verið 6-7% fór reyndar í 9% árið 2008 á meðan að þetta hlutfall er viðvarandi 11-13% hjá sveitarfélögum sem staðsett eru á vaxtarsvæðum utan höfuðborgarsvæðisins. Í þeim sveitarfélögum ásamt Reykjavík eru staðsettir okkar helstu keppinautar á sviði afreksíþróttanna.

Sjálfboðaliðastarfið dýrmætt

Í íþróttahreyfingunni á landsvísu er talið að nálægt 20.000 sjálfboðaliðar starfi í stjórnum og nefndum, fyrir utan þann fjölda sem kemur að starfinu á annan hátt. Ef vinnuframlag þessa fólks er metið á um 200.000 krónur á ári, sem er ekki fjarri lagi, þá er heildarframlag stjórnar- og nefndarmanna á landsvísu rúmir 4 milljarðar króna á ári. Því má ljóst vera að það starf sem sjálfboðaliðar í Ungmennafélagi Selfoss vinna á hverju ári megi meta á tugi milljóna og sé umfram það sem gerist á landsvísu ef miðað er við lág framlög sveitarfélagsins. Þeim sem starfa að og fylgjast með íþróttastarfi vita að þátttaka í íþróttastarfi ýtir undir vináttutengsl og traust þar sem starfið byggir á skýrum reglum í leik og starfi. Einnig er almennt viðurkennt og vitað að íþróttir eru hagkvæmar fyrir samfélagið. Því má fullyrða að Ungmennafélag Selfoss sé ein af uppeldisstofnunum sveitarfélagsins sem ber að hlúa að og styrkja. Að lokum vil ég óska ykkur til hamingju með árangurinn!.


Frábært framtak

MS er sjúkdómur í miðtaugkerfinu (heila og mænu).

Multiple Sclerosis er ráðgáta sem valdið hefur miklum heilabrotum innan læknisfræðinnar frá því sjúkdómnum var fyrst lýst af franska taugasjúkdómafræðingnum Charcot árið 1868. Sjúkdómurinn hefur áhrif á miðtaugakerfið og getur, að mismunandi miklu leyti, haft áhrif á taugaboð í heilanum, mænunni og sjóntaugum.

Nafn sjúkdómsins gefur til kynna hvað gerist þegar fólk fær MS. Sclerosis er grískt orð og þýðir ör eða „harðnandi vefur“og multiple þýðir mörg. Endurtekin MS köst geta valdið margvíslegum skemmdum í miðtaugakerfinu og er það afleiðing af niðurbroti mýelins, sem er einangrandi efni sem umlykur taugafrumur. Þetta getur dregið úr hreyfihæfni, skynjun og hugsun að meira eða minna leyti. Síðan MS var fyrst „uppgötvaður“ hefur hann verið rannsakaður ítarlega um víða veröld. Orsakir hans og lækning eru enn óljós. 

Ýmsar almennar greinar um sjúkdóminn er að finna í greinasafni á msfelag.is
mbl.is Þetta er mjög erfitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Markaðssetning og kynningarstarf sveitarfélaga

Gerði þessa léttu rannsókn mér til gamans og vonandi verður hún öðrum að gagni.

Sjá Hlekkinn


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fundir á Stokkseyri og Eyrarbakka

Mörg mál hafa verið reifuð á fundunum á þriðjudags- og miðvikudagskvöld og mjög áhugavert að hlusta á skoðanir, skýringar og ábendingar íbúa.

Hér á eftir er upptalning á hluta af því sem komið hefur fram:

Turnar við Stokkseyri, grasrótin, stúkumannvirki, rekstur sveitarfélagsins, almenn þjónusta, gjaldskrár, kostnaðarvitund, málefni fatlaðra, undarleg staða sveitarfélaga, lántökur sveitarfélaga, undanlátssemi, félagslegar íbúðir, bent á mikilvægi vel ígrundaðra og réttra ákvarðana, aðstöðusköpun, bæjarstjórar eður ei, ylströnd,  leiðarkerfi strætó og stoppistöðvar, skipulagsmál, myndastyttur, Ölfusárbrú, bílafloti sveitarfélagsins, fasteignamat, frárennslismál, torg, unglingavinnan, svæfðar hugmyndir, yfirbygging sveitarfélagsins, skóli á Stokkseyri, aukning umferðar vegna Landeyjahafnar, ferill mála í stjórnkerfinu, heimasíðan, skóli á Eyrarbakka, aðalskipulagið og stjórnskipulagið.


Samgöngur í þéttbýli

-Grein birt í Sunnlenska fréttablaðinu 4. mars 2010-

Hlutverk gatna er ekki eingöngu til þess að akandi komist um þær á eins fljótlegan og þægilegan hátt og hægt er. Hlutverk þeirra er einnig að gegna félagslegu og efnahagslegu tilliti. Þegar horft er til miðbæja víðsvegar um heim þá er lögð áhersla á að umferð sé þar hæg, göturnar séu líflegar og fallegar og fjölbreytileg þjónusta sé við þær. Mikil umræða hefur farið fram hér í sveitarfélaginu á undanförnum árum um hvernig miðbæir eiga að vera og líta út, en minna hefur verið um framkvæmdir. Þó er flestum ljóst að ástandið eins og það er nú er ekki til mikils sóma fyrir byggðarkjarnana.

Þjóðvegurinn

Á álagstímum yfir sumartímann skapast oft veruleg óþægindi af umferðinni í miðbæ Selfoss. Á meðal sumardegi er umferðin um 20.000 bílar á sólarhring um þann kafla þjóðvegarins sem liggur í gegnum bæinn. Samkvæmt könnun sem gerð var árið 2003 er gegnumumferð um 15% á þeim kafla þjóðvegarins sem liggur í gegnum Selfoss eða um 3000 bílar á meðalsumardegi. Gert er ráð fyrir að um 3-600 bílar bætist við á dag vegna Landeyjahafnar. Það er því ljóst að það stefnir í óefni þegar nýja höfnin verður vígð.

Hver er lausnin?
Það er tvennt hægt að gera í stöðunni, bæta samgöngur í þéttbýlinu eða gera hjáleið. Bæjaryfirvöld hafa á síðustu árum komið til móts við þá þörf að bæta samgöngur í þéttbýlinu með gerð göngu- og hjólreiðastíga sem léttir á akandi umferð. Vegagerðin hefur einnig lagt sitt af mörkum með gerð hringtorgs við Ölfusárbrú. Nú er vandséð hvernig bæta á samgöngur frekar nema með hjáleið og þá væntanlega með nýrri brú yfir Ölfusá. Þegar velja á staðsetningu fyrir nýju brúnna þarf að vera skýrt hvaða markmiðum henni er ætlað að ná og að sú lausn sé valin sem líklegust er til að ná þeim markmiðum.

 


Dæmi um skekkta samkeppnisstöðu sveitarfélaga

Það er vonandi að þetta ástand vari ekki lengi. Ég er einnig sannfærður um að Snorri Finnlaugsson og félagar leggi sitt á vogarskálarnar til að snúa dæminu við á næstu árum til að gera Sveitarfélagið Álftanes samkeppnishæft á ný.


mbl.is Engir íþrótta- og tómstundastyrkir í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spáir björtu......trefillinn horfinn!

Það spáir betri tíð með blóm í haga.

Lán í óláni!

Þvílík lukka að við skyldum hafa verið á staðnum.

Hefði ekki boðið í það að sjá hvernig um hefði verið að litast á mánudag ef vatnið hefði fengið að flæða óhindrað alla helgina.

Væntanlega líkt og Salvador Dalí hefði mundað pensilinn.

 


mbl.is Vatnstjón í Sunnulækjaskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Markaðssetning og kynningarstarf í Sveitarfélaginu Árborg

-Grein birt í Dagskránni 25. febrúar 2010-

Vegna umræðu í sveitarfélaginu um markaðs- og kynningarstarf ákvað undirritaður að gera rannsókn á því hvernig umfjöllun um hina ýmsa byggðarkjarna landsins hefur þróast frá árinu 1950 og hvort hún sé í takti við íbúaþróun á hverjum stað fyrir sig. Þessi rannsókn var gerð með hjálp upplýsinga frá Hagstofunni og vefsíðunnar timarit.is en hún veitir aðgang að prentuðum blöðum og tímaritum frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi á stafrænu formi, þar sem notendur geta leitað að efni á ýmsan hátt, svo sem eftir titlum, löndum eða völdum orðum í öllum texta ritanna. Hér verður gerð grein fyrir helstu niðurstöðum um byggðarkjarnana í Sveitarfélaginu Árborg.

Morgunblaðið góð heimild

Ef sett eru inn nöfn byggðarkjarnanna í leitarslóð og fallbeygingar þeirra orða sést hve oft þau koma fyrir í hinum ýmsu blöðum og tímaritum. Fjöldi leitarniðurstaðna er mestur í Morgunblaðinu. Sá prentmiðill hefur komið út samfleytt frá árinu 1913 og er því nokkuð góð heimild um umfjöllunarefni líðandi stundar á hverjum tíma.

Fjöldi leitarniðurstaðna

Fjöldi leitarniðurstaðna á árabilinu 1950 til 2009 sést á súluritinu fyrir hvern byggðarkjarna í Sveitarfélaginu Árborg ásamt Árborgar heitinu sjálfu. Það sem er athyglisvert að sjá er að það er stöðug aukning á umfjöllun um byggðarkjarnana í Árborg. Það kemur að einhverju leyti til af því að Morgunblaðið stækkar að umfangi og efnistökum og einnig af því að umfjöllun almennt hefur aukist um byggðarkjarnana í áranna rás.

Aukning umfjöllunar milli áratuga

Á línuritinu sést aukning umfjöllunar á hverju tíu ára tímabili í byggðarkjörnum Árborgar. Eins og sést á línuritinu þá er um 100% aukning á umfjöllun um Selfoss frá áttunda til níunda áratugar síðustu aldar og um 90% aukning á milli níunda og tíunda áratugar fyrir Eyrarbakka. Á þessum árum var Selfoss nýbúið að öðlast kaupstaðarréttindi og ungi kaupstaðurinn auglýsti staðinn grimmt sem miðstöð samgangna og ferðaþjónustu tengdri höfuðborginni með hraðbraut, þar var allt Suðurland lagt undir. Þá eru ótaldar þær sýningar sem voru hér þ.e. landbúnaðarsýningin, iðnsýningar o.s.frv. og því var slegið upp í prentmiðlum að það þætti einstakt að hér þrifust 65 iðnfyrirtæki í 3000 manna bæ. Íbúafjölgun varð hér mikil og þótti mikið fagnaðarefni að hún væri stöðugt yfir landsmeðaltali.

Hvað gerist svo?

Meðalaukning umfjöllunar á milli áratuga í Morgunblaðinu hjá þessum 3 byggðarkjörnum yfir 60 ára tímabil er 44%. Ef litið er til síðustu tveggja áratuga sést að hlutfallsleg aukning umfjöllunar á milli áratuga hefur lækkað umtalsvert um Selfoss og Eyrarbakka en hækkað fyrir Stokkseyri. Væntanlega hefur umfjöllunin aukist um Stokkseyri vegna kraftmikils starfs einkaaðila þar, sem hafa verið duglegir við að auglýsa staðinn. Þessar leitarniðurstöður gefa ákveðnar vísbendingar um að þeir sem annast markaðs- og kynningarstarf sveitarfélagsins fyrir hönd byggðarkjarna sinna þurfa að girða sig í brók. Markaðssetning og kynningarstarf á byggðarkjörnum sveitarfélagins má nefnilega ekki mæta afgangi. Það er því nauðsyn að sýna kjark og þor og snúa þessari þróun við í samstarfi við fyrirtæki, verslunareigendur og þjónustuaðila í sveitarfélaginu til heilla fyrir okkur íbúana.

 

       
Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér efni skýrslunnar frekar og gera samanburð við aðra byggðarkjarna landsins geta haft samband við undirritaðan í síma 866 3684 eða með því að senda tölvupóst á netfangið ellert@verkarborg.is frá og með mánudeginum 1 mars.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tólf frambjóðendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Sveitarfélaginu Árborg!

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í þriðja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Sveitarfélaginu Árborg fyrir komandi sveitarstjórnakosningar.

Á þessari bloggsíðu verður hægt að nálgast greinar eftir mig sem birtar hafa verið í blöðum og tímaritum, sem og efni sem mér er hugleikið.

Prófkjörið fer fram laugardaginn 13. mars nk. frá kl. 10.00 til 18.00. Utankjörstaðakosning hefst laugardaginn 27. febrúar, hægt verður að kjósa  í Sjálfstæðishúsinu Selfossi að Austurvegi 38 frá kl. 18.00 til 19.00 alla virka daga og frá 13.00-15.00 um helgar. Í Valhöll verður hægt að kjósa virka daga frá 9.00 til 17.00.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband